Frá degi til dags við upphaf lokaspretts

Skal nú samantekið og birt yfirlit yfir nýliðna daga, á hvurja ýmislegt hefur drifið. Störfum mínum fyrir Reykjavík er formlega lokið, leikþáttur eftir mig kominn í deiglu Hugleiks og gæti slysast á svið, partístand og fleira.

Í lok dags á fimmtudaginn var haldið fyrir mig kveðjukaffi í vinnunni. Mæting var merkilega góð miðað við það hversu margir eru í fríum og það hlýtur að hafa verið freistandi að laumast fyrr út um daginn. Sjálfur gerði ég það reyndar, skrapp frá í nokkra tíma til að komast í banka og nokkrar verslanir, fá mér bananaístitring og spóka mig aðeins í sólinni. Mætti svo bara í rjómatertunao og til að taka í höndina á verðandi eftirmanni mínum.

Um kvöldið var boðað til upplestrar á verkum sem höfundar hafa áhuga á að leggja fram í einþáttungasýningar haustsins hjá Hugleik. Mæting hefði reyndar mátt vera betri, en það stafar líklega af því að kvöldið var ekki nægilega auglýst innan félagsins. Þarna var lesið upp margt spennandi og ljóst að úr nógu er að moða fyrir haustið. Sjálfum fannst mér auðvitað áhugaverðast að heyra leikþáttinn minn lesinn og hann fékk ágætar undirtektir og nokkur hlátrasköll. Svo er bara að sjá hvort einhverjir innan hópsins hafa áhuga á að taka að sér að setja hann upp.

Við vorum nokkur beðin um að koma aðeins fyrr til að taka til í húsnæðinu, en þar er nýlega búið að setja upp hillur og til að búa til vinnupláss hafði stöflum af alls kyns mögulegum og ómögulegum leikmunum verið dreift um salinn. Sannast sagna leist okkur Nínu ekki á blikuna með það að gera salinn boðlegan fyrir partí á laugardaginn.

Hillurnar reyndust hins vegar glettilega drjúgar þegar að því kom að raða áðurnefndum leikmunum upp í þær og með samstilltu átaki tókst að gera salinn prýðilega fínan. Það sem ekki raðaðist í hillur földum við með fatarekkum og drapperingum.

Á föstudag rann svo upp minn síðasti alvöru vinnudagur. Reyndar ætla ég að kíkja aðeins í vinnuna á þriðjudaginn til að hitta eftirmann minn á stuttum fundi og reyna að koma honum inn í það sem er í gangi og svara þeim spurningum sem hann kann að hafa. Þessi síðasti vinnudagur fór aðallega í það að hnýta lausa enda og taka til í gögnum. Ég var smástund að komast í gang, en með góðri skorpu tókst að klára það sem klára þurfti og ég yfirgaf autt skrifborð og stimplaði mig út í síðasta sinn kortér fyrir sex til að rölta út í kvöldþokuna.

Um kvöldið kíktum við Sigmar í afmæli til Þórarins Alvars frænda okkar. Þar var rólegheitastemmning, frábær puttamatur, súkkulaði fondue og að sjálfsögðu súkkulaðikakan hennar Siggu. Ekki voru sérlega margir bjórar innbyrtir en þeir höfðu grunsamlega mikil áhrif á jafnvægisskynið - líklega einhver uppsöfnuð þreyta í mér. Veðrið brást ekki frekar en undanfarna daga og ekki laust við að það væri ákveðin útlandastemmning í því að rölta milli húsa á stuttermabolnum eftir miðnætti (reyndar verð ég að viðurkenna að ekki var það sérlega löng leið - en það er aukaatriði).

Á laugardagsmorguninn vaknaði ég svo fyrir allar aldir, en með þrautseigju og dugnaði tókst mér að sofna aftur og svaf fram undir hádegið. Þá leit Margrét við í stuttri heimsókn og síðan tók letilifnaður mikill yfirhöndina. Í stuttu máli gerði ég eiginlega ekki neitt allan laugardaginn (nema að skjótast í Bónus að kaupa inn fyrir leikfélagspartíið um kvöldið og fara með það út á Eyjaslóð). Að hluta til er þar um að kenna útsendingum frá enska boltanum, en þó aðallega innbyggðri leti. Þessi letilifnaður var svo toppaður með því að láta Hróa Hött sjá um að matreiða kvöldmatinn sem snæddur var í kvöldsólinni á svölunum.

Um kvöldið var svo leikfélagskveðjupartí okkar Nínu. Eins og við var að búast mættu gestir ekki sérlega tímanlega en þeim fjölgaði jafnt og þétt þegar leið á kvöldið. Varð úr þessu hið prýðilegasta teiti sem stóð eitthvað fram eftir nóttu. Sjálfur yfirgaf ég það í traustum höndum Nínu (þ.e. partíið, ég var einn míns liðs) um hálffjögurleytið og tölti út í sumarnóttina.

Eins og við var að búast vaknaði ég svo á sunnudagsmorgun klukkan 8, en tókst aftur af harðfylgi að sofna á ný. Um hádegið dröslaðist ég á lappir og lagðist aftur í boltagláp og annað ámóta iðjuleysi fram eftir degi. Fór svo á Farenheit 9/11 um kvöldið og greip í smá backgammon á ónefndri búllu í miðbænum.

Í fyrramálið hefst full vinnuvika án formlegrar vinnu. Það eru því engar (a.m.k. fáar) afsakanir fyrir því að ganga ekki berserksgang í niðurpökkun, tiltekt og öðrum undirbúningi utanfarar. Það má því segja að formlegur endasprettur sé að hefjast.

Ef ég þekki mig rétt mun ég þó finna mér örlitla stund til að koma Svarfaðardalsmyndum sem mér voru að áskotnast frá Gulla á vefinn og hugsanlega einhverjum myndum úr partínu í gær.


< Fyrri færsla:
Síðasti dagurinn í vinnunni
Næsta færsla: >
5 km: 27:30 mín
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry