Púff! Fjórir dagar eftir!!!

Og þar af ekki nema tveir virkir dagar! Enn er þó möguleiki að þetta takist með samstilltu átaki mínu og sjálfs míns. Efast hins vegar stórlega um að ég hafi tíma til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu - því miður!

Mánudagurinn fór eins og áður hefur verið skjalfest í það að rótast í fataskápum.

Á þriðjudag byrjaði ég á því að funda með eftirmanni mínum og reyna að setja hann inn í það sem er í gangi. Síðan tóku við útréttingar dauðans. Eftir þá törn er ég kominn með samnorrænt flutningsvottorð, bakpoka fyrir fartölvuna, USB minniskubb, Frelsi hjá Símanum og sitthvað fleira. Gekk frá leigusamningi við nýja leigjandann minn. Eftir stutt stopp hjá systkinunum í kvöldmat tók ég svo geymsluna í gegn, þreif hana og rústaði út gömlu drasli sem fara átti á haugana. Reyndi að púkka upp þannig að kassarnir liggi ekki á gólfinu ef gólfið skyldi vökna og umraðaði hillum þannig að ég gæti sett golfsettið á stall.

Í dag, miðvikudag, bar það fyrst til tíðinda að ég vaknaði ekki með kvíðahnút í maganum, sem er mjög gott. (Að losna við hann þ.e.)

Síðan er ég búinn að fara tvær ferðir á Sorpu, fara í bókabúð og kaupa dansk-íslensk-danska orðabók, kíkja í hádegismat til Ella, setja meira í kassa, fá Sigmar í heimsókn og með aðstoð hans tæta í sundur heimabíókerfið og skápana sem voru undir því, setja fyrstu kassana niður í geymslu!endurreisa kerfið aftur á Fálkagötunni og skila málningardóti sem ég fékk lánað fyrir tæplega þremur árum.

Á morgun ætla ég að skella niður í geymslu öllu því sem er niðurflutningshæft og byrja svo að pakka leirtaui úr eldhúsinu. Annað kvöld er það svo Rómeó og Júlía.

Sem minnir mig á það að nýjar Svarfaðardalsmyndir hafa bæst við: Myndir frá Gulla. Ég fékk frá honum disk um síðustu helgi og eftir að hafa vinsað út þær sem voru mjög hreyfðar eða áberandi úr fókus rata 36 "nýjar" myndir á vefinn.

Frægasta ber auðvitað að telja loftmyndina af grunnnámskeiðinu hjá Ástu. Ég ætla að græja desktop-útgáfu af henni fyrir þá sem áhuga hafa (þegar ég er ekki svona helv. syfjaður). Gæti birst hér fyrir jól.

Blóm óska eftir heimili. Ég er með nokkur blóm sem að öllu óbreyttu enda á haugunum. Ef einhver vill hirða þau myndi það gleðja mitt litla hjarta. Um er að ræða þrjú drekatré, fíkus og paradísartré. Ekki glæsilegustu blóm í heimi en gott lífsmark með þeim öllum. Pottar myndu að sjálfsögðu fylgja með.

Ættleiðingartilboð óskast í tölvupósti eða í 895 7561.

Þreyttur. Verð að so......


< Fyrri færsla:
Niðurtalning: 6 dagar eftir
Næsta færsla: >
1 dagur eftir - vonarglæta
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry