Kaupmannahöfn brennur stadigvæk

Í gær var kynningardagur á upplýsingakerfi skólans, um kvöldið brann hluti Kaupmannahafnar og í dag stúderaði ég kirkjugarða ásamt því að prufukeyra Metróinn í eins konar fýluferð yfir til Amager.

Það er ekki auðvelt að ákveða hvernig maður stendur að dagbókarskrifum þessa dagana. Mér datt margt í hug meðan á tiltektarvikunnni stóð sem ég hefði viljað skrá niður en gaf mér ekki tíma til. Síðustu daga hefur svo auðvitað margt á þá drifið (dagana, þ.e.) en dagbókarfærslurnar verið í styttra lagi. Ég sé bara til hvernig þetta vinnst, en núna ætla ég að láta tvo síðustu daga nægja.

Fyrstu nóttina mína í útlandinu svaf ég miklu betur en ég hafði búist við, líklega var uppsöfnuð þreyta í mér sem gerði það að verkum að ég svaf næstum í einum dúr, en er vanur að sofa mjög köflótt fyrstu nótt á nýjum stað.

Þrátt fyrir mikla traffík í íbúðinni um morguninn vaknaði ég ekki fyrr en Jesper vakti mig og eftir morgunmat og snögga sturtu fylgdi hann mér á strætóbiðstöðina þaðan sem ég tók vagn niður á Rådhuspladsen þar sem ég vissi af vagni sem stoppaði beint fyrir utan skólann. Ég hafði haft áhyggjur af því hvernig ætti að nota tímann milli 9 og 16 til að kenna okkur á Windows og netkerfið, sá fyrir mér að byrjaði yrði á því að kenna okkur að kveikja og slökkva á tölvunni.

Áhyggjurnar reyndust óþarfar, farið var hratt yfir helstu atriði og eftir um tveggja tíma fyrirlestur (með hléi) var hópnum skipt upp og við fórum í skoðunarferð um húsið. Síðan var matarhlé og eftir hádegið höfðum við tækifæri til að setjast í tölvuver, breyta lykilorðunum okkar og kynnast skólanetinu. Uppsetning þess held ég að sé að flestu leyti hefðbundin, en prentkerfið virðist sniðugt. Öll prentsköl fara á miðlægan prentþjón, síðan fer maður á þann prentara sem hentar manni, setur lykilkort í lesara og velur að prenta út.

Við fengum verkefnablað með nokkrum verkefnum til að prófa, ég lét mér nægja að fara hratt yfir sögu. Ég er búinn að setja upp "heimasíðu" á nýju vefslóðinni minni: itu.dk/people/thorarinn. Tók heilar tvær mínútur í það!

Skólinn sjálfur er mjög flottur að sjá, en ég tók strax eftir nokkrum greinilegum einkennum "designitis", þ.e. ofhönnunar hönnunarinnar vegna. Til dæmis eru stofur, klósett og þess háttar merkt með texta og táknum á hurðunum. Ef dyrnar eru opnar er hins vegar engin leið að sjá hvaða herbergi þetta er. Við vorum líka vöruð við lyftu sem býður upp á það að stoppa á 1. hæð þar sem engin fyrsta hæð er! Að íslenskum hætti eru handverksmenn enn að störfum, reisandi tré og stillandi upp græjum.

Um kvöldið sátum við hér heima við spjalli þegar fóru að heyrast torkennileg hljóð utan úr garði, fyrst hljómaði það eins og kínverjar væru að springa en síðan tóku við stærri sprengingar. Í ljós kom að kviknað var í húsi í sömu U-laga húsalengjunni og við erum í. Héðan leit þetta ekki vel út, eldurinn magnaðist upp og virtist teygja sig upp eftir byggingunni. Maður horfði yfir á 6 hæða húsin sem eru greinilega sýnileg héðan úr íbúðinni og sá fyrir sér heilan svoleiðis stigagang brenna upp úr. Húsið sem brann sést reyndar illa vegna trjáa í garðinum og í morgun kom ljós að þetta var ekki nærri jafn slæmt og það leit út fyrir. Slökkviliðið var fljótlega komið á staðinn og eldurinn virtist fljótlega slökktur.

Fljótlega eftir það fór síðan að rigna með þvílíku úrhelli (og í þessum rituðum orðum er verið að sýna myndir af flóðfylltum kjöllurum í kvöldfréttum).

Okkur leist illa á blikuna á tímabili þegar eldurinn virtist vaxa óðfluga og við veltum því fyrir okkur hvað maður myndi taka með sér ef eldurinn breiddist hingað til okkar. Þegar ég fór svo að sofa fann maður fyrir leifum af adrenalíninu sem ég hafði ekki tekið eftir meðan á látunum stóð. Það er fátt sem sýnir manni jafn vel hvað náttúran tekur lítið tillit til verðmætamats mannanna eins og að fylgjast með eldsvoða.

Ekki bætti úr skák að úrhellinu fylgdi þrumuveður með heilmiklum eldingum og þótt ég hafi ekki haft neinar áhyggjur af þeim er maður óvanur hávaðanum og því að kröftugustu eldingarnar varð maður var við gegnum lokuð augnlokin.

Í morgun svaf ég út, enda frídagur. Skömmu fyrir hádegið fór ég svo í túristagöngutúr um Valby og nágrenni. Komst að því að bruninn mikli hafði líklega bara verið í einni íbúð, þar sem húsið sem "brann" er tveimur hæðum lægra en húsin í kring var þetta íbúðin á efstu hæð sem brann þannig að logarnir sem okkur þóttu teygja sig upp á eftir hæðir fóru bara upp í loftið. Túristagangan fór einkum um Vestre Kirkegård þar sem ég naut veðurblíðunnar og kyrrðarinnar og tók slatta af myndum sem ég reyni að koma á vefinn við tækifæri (nenni því ekki í kvöld).

Seinnipart dagsins prófaði ég að taka metróinn yfir á Amager í þeim tilgangi að heimsækja framleiguskrifstofuna í Öresundskollegiet sem reyndist hins vegar vera lokuð. Kannski reyni ég að skjótast þangað á morgun ef færi gefst milli kynninga, en þá er fyrsti formlegi kynningardagurinn í skólanum.

Af húsnæðisleitinni er fátt fréttnæmt, ég er búinn að senda fyrirspurnir um nokkrar áhugaverðar íbúðir en hef ekki fengið svör. Í dag datt svo mjög spennandi íbúð inn á einn leigumiðlunarlistann, en þótt ég reyndi að vera snöggur að bregðast við fékk ég þau svör að búið væri að leigja hana út.

Ef ég verð ekki búinn að finna mér íbúð fyrir helgina geng ég í það að græja herbergi, af þeim virðist vera töluvert úrval - málið er að finna eitthvað sem maður sættir sig við.

Annars verð ég að geta þess að Dönum er ekkert heilagt. Hér eru um allt auglýsingar um sjónvarpsþáttinn De fantastiske 5 sem ég hélt að væri hinir frábæru amerísku hommar, en þegar að er gáð passa andlitin ekki heldur virðist um að ræða danska stælingu!!!


< Fyrri færsla:
Sestur á skólabekk/skrifborðsstól
Næsta færsla: >
Axlarumlit eftir fyrstu vikuna
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry