Axlarumlit eftir fyrstu vikuna

Þá er fyrsta danska helgin gengin í garð og eflaust rétt að líta aðeins um öxl yfir það sem á dagana hefur dregið undanfarið. Í stuttu máli hefur þetta gengið vonum framar og ég er mjög ánægður með móttökurnar í skólanum.

Ég var í skólanum á þriðjudag, fimmtudag og föstudag. Á þriðjudag var kynning á tölvukerfi skólans, á fimmtudag var hann settur og á föstudag var svo fyrsti fyrirlesturinn. Fimmtudagurinn hófst með morgunverðarhlaðborði í aðalrými skólabyggingarinnar, síðan fórum við inn í stærsta fyrirlestrasalinn sem er á stærð við þokkalegasta bíósal, ég myndi skjóta á að þar séu trúlega um 300 sæti. Rektor bauð okkur velkomin og fór yfir helstu áhersluatriði skólans og útskýrði hvað lögð yrði áhersla á í náminu. Þá tók við kennslustjórinn (ég held að það sé skársta þýðing á titli hans) og það sem vakti athygli flestra var að hann lagði áherslu á að við nytum námsins og værum dugleg við að nýta okkur það sem skólinn hefði upp á að bjóða, og drulluðum okkur svo í burtu!

Hann notaði reyndar ekki nákvæmlega það orðalag, en svo gott sem, enda virtist hann ekki hafa mikinn áhuga á að sitja uppi með fleiri eilífðarstúdenta.

Þá var hópnum skipt upp eftir því á hvaða línum við værum og tungumálið skipti úr ensku yfir í dönsku, enda er ég á danskri línu með að því mér sýnist tómum Dönum og tveimur Svíum (a.m.k. í hópi okkar byrjendanna, ég hef ekki hitt teljandi af eldri nemendum og eflaust eru fleiri þjóða kvikindi þar). Það kómíska er reyndar að þeir tveir samnemendur mínir sem ég á erfiðast með að skilja eru Svíarnir tveir, þrátt fyrir sænskukunnáttu mína. Þeir tala einhverja skelfilega skánsku sem er virkilega erfitt að fylgja.

Ég nenni ekki að telja upp hverja einustu kynningu sem við höfum fengið, en á þessum tveimur dögum hafa tveir eldri nemendur haldið utan um okkur, sýnt okkur skólann og skipulagt móttökuprógramm þar sem við höfum hitt flesta lykilstarfsmenn, fengið nasasjón af þeim rannsóknum sem eru í gangi innan línunnar og séð dæmi um eldri nemendaverkefni (en þau eiga eftir að verða stór hluti af náminu).

Allt lítur þetta mjög vel út og ef eitthvað er kvíði ég því að þurfa að velja "bara" 9 kúrsa meðan á náminu stendur.

Það er lögð mikil áhersla á að við séum með allt á hreinu sem að okkur snýr og mér heyrist samnemendur mínir vera sammála um að móttökurnar eru framar vonum og gerólíkar því sem þeir áttu að venjast í sínum fyrri skólum. Ef ég ber þetta saman við móttökurnar í HÍ í gamla daga er þetta eins og svart og hvítt. Þar var móttökuprógrammið nokkurn vegin: "Velkomin, nú þurfið þið að bjarga ykkur sjálf".

Annað sem ég er impóneraður með (svo maður sletti smá) er ScrollBarinn, sem er nemendabar hússins og heldur vikulegan Fredagsbar. Reyndar var tekin generalprufa á föstudagsbarinn síðasta fimmtudag og síðan frumsýnt í gær. Ósköp dejligt að geta fengið sér einn stóran kranabjór á 15 krónur (180 íslenskar). Það er líka til marks um hvað Danirnir leggja áherslu á félagslífið að það er ekki eins og barnum hafi verið troðið einhversstaðar þar sem pláss fannst, heldur er hann á besta stað með 10 metra lofthæð og töff hönnun. (Reyndar hafa samnemendur mínir haft á því orð að hann sé heldur kaldur eins og er og vilja gjarnan fá hann gerðan huggulegri).

Ég er líka búinn að finna "hinn" Íslendinginn. Það vill reyndar svo skemmtilega til að hann var nemandi í Kvennó þegar ég kenndi þar, en slapp reyndar við að hafa mig sem kennara. Ef mér skjátlast ekki var hann svo samtíða Sigmari bróður í HR.

Það að kljást við nýtt tungumál hefur gengið framar vonum. Fyrirlesararnir tala ágætlega skýrt og ég skil um 80-90% af því sem þeir segja og svo til allt þegar ég veit um hvað þeir eru að tala (og ég veit að það er hærra hlutfall en sumir af dönunum skildu í Java fyrirlestrinum :). Það er helst þegar þeir bregða sér út af sporinu og tala um eitthvað annað, eða svara spurningum frá nemendum sem ég hef kannski ekki heyrt almennilega, að ég þarf að kljást við að átta mig á því um hvað er rætt. En ef þeir eru með góðar glærur hefur það ekki verið neitt vandamál (a.m.k. ekki enn).

Ég hef líka reynt að vera duglegur að spjalla við samnemendur mína. Við spjölluðum saman tvö og tvö fyrsta daginn og áttum síðan að kynna hvort annað fyrir hópnum. Ég kynnti Rasmus, 24 ára Kaupmannahafnarbúa og hann mig. Það að nafnið mitt skyldi ekki vera framberanlegt á dönsku og að ég skyldi vilja láta kenna mig við spænskan tarf vakti athygli. Enda hefur það komið á daginn þegar ég spjalla við krakkana að nafnið mitt (Tóró þ.e.) var það eina sem allir mundu.

Flestir ef ekki allir hafa verið steinhissa á því hvað ég tala þó góða dönsku eftir að hafa bara verið tæpa viku í Köben. Þau verða síðan enn meira hissa þegar þau komast að því að ég skuli ekki vera kominn með fastan samastað.

Eftir Fredagsbaren í gær bauð ég svo Jesper og Hönnu á kaffihús hér í nágrenninu (valið af þeim) þar sem við fengum okkur prýðilegan kvöldmat (einhvern ógurlegasta kjúklingahamborgara sem ég hef um daga mína séð). Eftir matinn kipptum við svo með okkur DVD og tókum rólegt kvöld.

Leitin að íverustað gengur rólega en gengur þó. Ég skoðaði herbergi í dag og er búinn að mæla mér mót í hádeginu á morgun við strák sem leigir út herbergi rétt hjá skólanum á Amager.

En svona að lokum ætla ég að láta fljóta nokkrar myndir sem ég tók í skólanum fyrsta daginn og sýnir hvernig hann lítur út (a.m.k. miðrýmið).

Nýja skólabyggingin

Nýja skólabyggingin

Nýja skólabyggingin

Búið í bili, skål.


< Fyrri færsla:
Kaupmannahöfn brennur stadigvæk
Næsta færsla: >
Kominn með herbergi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry