Kominn með herbergi

Í gær (sunnudag) fór ég yfir á Amager til að skoða herbergi sem ég hafði séð auglýst á netinu og var búinn að setja mig í samband við þann sem auglýsti. Í sem stystu máli var ég svo að flytja mitt hafurtask þangað í morgun.

Stærstur hluti gærdagsins fór annars í að spássera um miðborgina, rölta Strikið og skoða mannlífið við Nyhavn. Skelli trúlega upp myndum af því við tækifæri.

Mér líst ágætlega á nýja landlordinn minn, Andreas, sem er háskólastúdent. Íbúðin er á fjórðu hæð (3. skv. talningaraðferð Dana) í gömlu húsi (eins og þau eru flest hér í Köben), en því virðist ágætlega viðhaldið og íbúðin sýnist mér vera nokkuð snyrtileg (svona miðað við allt og allt). Herbergið er stórt og bjart með timburgólfi og því fylgir forláta leðursófi auk þess sem Andreas lánar mér dýnu fyrstu næturnar þar til ég kem mér í að kaupa mér rúm.

Íbúðin er á frábærum stað, í prýðilegu göngufæri við skólann (ég var ca. 10 mín. að labba í morgun og verð mun fljótari þegar ég verð búinn að koma mér upp hjóli). Fyrir þá sem til þekkja er ég alveg rétt hjá Øresundskollegiet og það blasir við út um gluggann hjá mér.

Nýja adressan mín er Uplandsgade 24, 3th, 2300 København S.

Eini ókosturinn sem ég sá í morgun er að svo virðist sem það sé vespuhreiður utan á húsinu einhversstaðar ofan við gluggann minn þannig að það er töluverð vesputraffík fyrir utan hann. Líklega þarf ég að koma mér upp einhverskonar flugnaneti áður en ég tek til við að sofa við opinn glugga.

Læt þetta duga í bili, mál að reyna að sýna smá dugnað áður en hópverkefni dagsins hefst.


< Fyrri færsla:
Axlarumlit eftir fyrstu vikuna
Næsta færsla: >
Flutningadagurinn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry