september 2004 - færslur


Flutningadagurinn

Þessi færsla er skrifuð á mánudagskvöld, en þar sem ég er ekki kominn með nettengingu hérna í herbergið (þó það gæti breyst) verður hún (vonandi) sett á netið þegar ég kem í skólann á þriðjudag. Ég á reyndar enn eftir að prófa að tengja USB kubbinn minn við tölvurnar í skólanum - hugsanlega þarf ég að klöngrast undir borð til að finna á innstungu, það kemur í ljós.

Risinn af sóttarsæng

Fimmtudagur var án efa minnst spennandi dagur Danmerkurdvalar minnar. Hann hófst með því að ég vaknaði um tvöleytið um nóttina við fyrirgang mikinn neðan þilja og næsta rúmum sólarhring var varið í rúminu bryðjandi til skiptis parasetamól og parkódín (parasetamólið kláraðist), með nokkuð reglulegum hraðskákum við páfann sem ekki verður nánar lýst hér af tillitssemi við lesendur.

Festarjöfnun í garði

Í þessum rituðum orðum sit ég á laugardagsmorgni í forsælunni í bakgarðinum "mínum" sem er mjög huggulegur með trépalli, sandkassa, rólum og þvottasnúrum. Surtla litla (áður nefnd Syrtla og þar áður Tinna) situr í fanginu á mér og við rifjum í sameiningu upp atburði liðinna daga.

Maraþonganga um útjaðar Kristjaníu

Eftir skriftir laugardagsmorgunsins hélt sólin áfram að skína og gleðja jafnt bauna sem íslinga. Eins og að var stefnt stúderaði ég hið rómaða bláa pakkhús sem helst verður lýst sem risavöxnu Kolaporti, örlítið ýktara á flesta vegu.

Afsakið hlé

Lesendur eru beðnir afsökunar á hléi sem orðið hefur á dagbókarfærslum undanfarna daga. Ekki liggur neitt alvarlegra þar að baki en takmarkað netaðgengi utan skólans og takmarkaminna annríki. Nú hefur nokkrum uppsöfnuðum textum verið bætt við, nýjar myndir af Vilborgu komnar inn og ef tími vinnst til bæti ég kannski meiru við síðar í dag.

Garðar grass og konungs

(Er enn að vinna upp skuldahala dagbókarfærslna). Á sunnudag var enn einn dagurinn með brjálaðri blíðu. Ég hafði uppi ráðagerðir um að fara í skólann og reyna að sýna smá dugnað við tölvuskjá, en þetta veður leyfði ekkert slíkt. Nú gilti bara að túrhestast um borgina.

Yfirdýnan sem hvarf

Á mánudagsmorgun lagði ég loks í margboðaðan IKEA leiðangur, tók Metróinn upp á Norðurport og tók þaðan ofurvagninn 150S út fyrir borgarmörkin. Ég reyndi að fylgjast með í kortabókinni minni en það gekk ekkert allt of vel þar sem leið okkar lá leiðinlega mikið á mörkum þriggja mismunandi korta. Ég náði þó áttum á síðustu stundu og streymdi út úr vagninum ásamt drjúgum hluta samferðafólks míns.

Á uppleið á leið á svið

Mér sýnist hér hafa verið sett nýtt met í notkun orðsins "á" í fyrirsögnum á þessum merka vef. Einþáttungur sem ég hef verið að berja saman með hléum frá því í vor er nú í miðju æfingaferli og mun forvitnum lesendum thorarinn.com gefast færi á að berja dýrðina augum (á undan höfundinum sjálfum) síðar í september.

Barbið

Nú er klukkan að verða hálffjögur á föstudegi hér í borg drottningar. Ég notaði tækifærið til að sofa aðeins út í morgun og er búinn að sitja hér við tölvuskjá síðan um ellefuleytið (með matar- og úrteygingarhléum). Dugnaður hefur reyndar ekki verið neitt ógurlegur, en ég er þó búinn að skila heimaverkefnum í einum áfanganum rúma viku fram í tímann.

Ný vinnuvika hafin...

Hjá mér hefst vinnuvikan formlega með maraþonþriðjudögum. Nú er einum slíkum lokið og ég frekar punkteraður. Læt því nægja að segja að héðan er allt í sóma og frekari fregna af afrekum helgarinnar að vænta við tækifæri.

Helgin á handahlaupum

Það er vissulega svolítið skondið að skrifa dagbókarfærslu um nýliðna helgi á þriðjudagskvöldi og vonast til að geta sett hana á vefinn seinnipart miðvikudags, en svona er líf háskólanemans - ekki alltaf eins og hversdagslíf hinna.

Danir... vakna of snemma

Það er með ólíkindum hvað Danir fara snemma á stjá á morgnana. Strax um fimmleytið eru ruslabílar komnir á stjá og húsið farið að vakna til lífsins. Fyrir stúdenta sem ætla að sofa til 7:45 er ekkert gaman að vakna tveimur og hálfum tíma fyrr.

Dag(bókar)draumar og væntingar

Ég stend sjálfan mig að því að langa að koma afskaplega mörgu í verk, en ég veit ekki hvort það er allt jafn raunhæft, enda á tíminn það til að svíkja mig (eða er það letin sem kemur mér í koll?)

Danir... hjóla

Það er freistandi að láta fyrirsögnina standa eina og sér, enda segir hún næstum allt sem segja þarf. Næstum.

Broddstafavesen

Eg a i einhverju broddstafaveseni a þessari tölvu sem eg er a nuna. Gleymdi að afrita a USB kubbinn minn texta sem eg hafdi skrifad i gær. Hjolapistillinn verður þvi að duga i dag. Annars allt gott.

Fimmtudagur til lítils frama

Eflaust á ég eftir að bölva iðjuleysi mínu þessa daga þegar skólinn kemst á fullan skrið. Núna stend ég sjálfan mig hins vegar að því að haga mér eins og túristi í sumarfríi þessa daga sem ekki er skóli, sef frameftir og rölti um í sólinni og versla.

Föstudagur: Búslóðarheimt

Eilítið seinna á föstudagsmorguninn en upphaflega var stefnt að hringdi ég á sendibílastöðina tregangfyreogtredve og pantaði hjá þeim "lille kassevogn". Hann kom síðan um hádegisbil (og var ekki mjög lítill) og í sameiningu skröltum við í Pakkhús 55 sem var heldur tómlegt en þó með nokkrum misstórum íslenskum búslóðum og tveimur finnskum Subaru Impreza.

Laugardagur: Danskur imbi hellist yfir

Eftir að hafa sofið út (eins og lög gera ráð fyrir) fór ég í enn eina innkaupaferðina um nágrenni mitt og kom úr henni með karlstykki fyrir loftnetssnúru, töng, tvo lengdarmetra af bómullarefni, poka af öryggisnælum og saumaskæri.

Sunnudagur í skóla

Þessi orð eru skrifuð á Surtlu litlu á sunnudegi á annarri hæð ITU þar sem ég og örfáar hræður aðrar sitjum á víð og dreif um húsið og þykjumst vera duglegar.

Skáfrændi!

Hanna Birna og Jesper eignuðust dóttur í fyrradag (20. sept.) og ég er þar með orðinn skáfrændi. Mér hefur verið falið það framtíðarverkefni að tala íslensku við dömuna til að hjálpa til við að tvítyngja hana (sem er ekki eins skelfilegt og það hljómar).

Sjáið verkið á undan höfundinum!

2. og 3. október sýnir Hugleikur einþáttungadagskrá undir yfirskriftinni "þetta mánaðarlega" í Kaffileikhúsinu. Þar verður meðal annars frumfluttur einþáttungur eftir mig sem ég hef ekki séð fluttan áður og sé ekki fram á að komast á frumsýninguna.

Dýnupirr

Nú eru rúmlega tvær vikur síðan ég pantaði (og borgaði) yfirdýnu (sem gleymdist í IKEA) í Jysk hér á Amager. Ég hafði ekkert heyrt frá þeim og ákvað því að koma við í búðinni í dag. Niðurstaðan: Engin dýna og alls óljóst hvenær hún kemur.

Mánuður liðinn

Mér telst svo til að nú sé ég búinn að vera rétt rúman mánuð í útlandinu og e.t.v. rétt að taka saman stutta skýrslu.

Húsabakkaminningar - lokaþáttur

Í ljósi hinnar fornkveðnu speki að betra er allt of seint en aldrei hyggst ég nú skrásetja lokahnykk endurminninga frá Húsabakkadögum, þ.e. frá skóladvöl minni í leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga nú snemmsumars. Þyki einhverjum lesenda minna þetta seint á ferð vil ég aðeins benda á þá staðreynd að yfirleitt eru æviminningar ekki skrifaðar fyrr en menn eru fjörgamlir - og jafnvel steindauðir (þótt þá sé strangt til tekið um að ræða ævisögur frekar en æviminningar).

Danir... reykja minna en ég hafði átt von á

Áður en ég fór að heiman hafði ég heyrt skelfilegar sögur af því hvað Danir reyktu mikið og maður væri hvergi óhultur. Það er reyndar rétt að þeir reykja ívið meira en Íslendingar, en munurinn er miklu minni en ég hélt að hann væri. Mín takmarkaða reynsla af dönsku skemmtanalífi er þó sú að hlutfall "sósíalreykjara" sé mun hærra en heima.

Að koma sér fyrir í skápnum

Í fyrsta sinn á minni löngu skólagöngu hef ég nú lyklavöld að alvöru læstum skáp eins og tíðkast í amrískum skólabyggingum. Umræddur skápur er á 2. hæð (3. skv. íslenskum skilgreiningum) og númer 144. Ég veit ekki hversu margir nemendur eru í skólanum, en lauslega áætlað myndi ég skjóta á að skáparnir séu milli 500 og 600.

Danir... jórtra ekki Extra

Í hópvinnu í æfingaverkefni fyrstu vikunnar dró ég einhvern tíman upp poka með silfurlituðu Extra upp úr axlartöskunni minni, fékk mér stykki og lagði pokann á mitt borðið með þöglu boði um að menn fengju sér. Félagar mínir létu sér nægja að gjóa augum á pokann og enginn gerði sig líklegan til að fá sér, þannig að hann hvarf aftur ofan í tösku. Ég hugsaði með mér að það væri aldeilis að menn væru í nammibindindi...

Gamall brandari ásækir mig

Einhverntíman komst ég að því að meðal skýringarmöguleika sem boðið er upp á við millifærslur í netbankanum mínum er "Meðlag", síðan hefur mér þótt það obboslega fyndið - sér í lagi ef ég er að millifæra yfir á reikninga vinkvenna minna. Enda enginn sem nokkurn tíman sér þennan brandara nema ég og viðkomandi. Hélt ég...

Pløgg spløgg

Þá verður litli leikþátturinn minn frumsýndur á laugardag! Meðfylgjandi er fréttatilkynning frá Hugleik um einþáttungadagskrána. (Nafnið mitt er að vísu beygt vitlaust, en ég ætla ekki að fárast yfir því enda beygjaði ég það svona þar til á lokaári í menntó).

Móðir allra leikja

Líkt og í öllum grunnáföngum í forritun höfum við í mínum PHP kúrsi fengið það verkefni að búa til forrit sem velur tölu og býður notandanum að giska á hver hún er. Mín útgáfa hefur nú verið lögð fram. Óþolandi kommentin eru mín uppfinning og þess má geta að mitt persónulega met er að finna réttu töluna í annarri tilraun.