Flutningadagurinn

Þessi færsla er skrifuð á mánudagskvöld, en þar sem ég er ekki kominn með nettengingu hérna í herbergið (þó það gæti breyst) verður hún (vonandi) sett á netið þegar ég kem í skólann á þriðjudag. Ég á reyndar enn eftir að prófa að tengja USB kubbinn minn við tölvurnar í skólanum - hugsanlega þarf ég að klöngrast undir borð til að finna á innstungu, það kemur í ljós.

Uppfært: kom þessu loksins á netið í dag, miðvikudag. Gera má ráð fyrir ámóta töfum á dagbókarinnfærslum a.m.k. næstu dagana.

Ég hef ekki tekið tölvuna með mér í skólann enn sem komið er. Mér finnst líka freistandi að bíða með það þar til ég verð búinn að fá læstan skáp svo ég geti geymt hana á vísum stað meðan ég er í tímum og þarf ekki á henni að halda.

Í dag hófst reyndar formlega fyrsta hópverkefnið okkar, sem við eigum eftir að vinna í þá seinniparta sem lifa af vikunni. Við tókum eins konar manngerðapróf í síðustu viku sem okkur var síðan skipað í hópa eftir, þetta var reyndar allra þynnsta útgáfa af prófi - mig minnir að það hafi ekki verið nema 4-5 spurningar - en ég greinist í því sem Administrative og Entrepreneur (ef það er rétt stafað), þ.e. bæði týpan sem heldur utan um að verkefnið gangi áfram og týpan sem er frjór í hugsun og bryddar upp á nýjungum. Gæti vel passað. Alls eru hóparnir 12 og vinna fjórir fyrir sama "kúnnann". Í okkar tilviki er það Institut for menneskerettigheder sem heldur úti tveimur ólíkum vefjum, öðrum um stofnunina sjálfa og hinum almennt um mannréttindi. Uppbygging þeirra er ólík og textar skrifaðir með ólíka lesendahópa í huga. Okkar meginverkefni verður að koma með tillögu að því hvernig hægt er að samhæfa þessi tvö vefsvæði betur. Ef tími vinnst til getum við einnig komið með tillögur að grafískri framsetningu, en það að leggja línur með að flétta upplýsingar á svæðunum saman í eitt held ég að sé alveg nægjanlegt verkefni (og ég kalla okkur góð ef okkur tekst að gera það með sómasamlegum hætti fyrir kynningu á föstudag).

Dagurinn hófst annars á því að fljótlega eftir morgunmat kvaddi ég Hönnu Birnu og Jesper og tók leigubíl á nýja heimilið. Það fyrsta sem leigubílstjórinn sagði þegar hann steig út úr bílnum fannst mér hljóma eitthvað í líkingu við "Hvor er du ifra?". Ég hváði þar sem það eina sem ég hafði sagt var "Goddag" og það eitt og sér hélt ég að ætti ekki að koma upp um mig. Þegar hann endurtók spurninguna kom í ljós að hann var að spyrja hvort ég væri að flytj að heiman "...hjem ifra". Það var líklega svarti ruslapokinn með rúmfötunum sem kom upp um að ég væri ekki á leið á flugvöllinn...

Þetta var annars skemmtilegur karl sem bölvaði og ragnaði yfir öllum sem hikuðu eitt augnablik í umferðinni (kom så for helvede) eða voru honum ekki að skapi í umferðinni. Ég fékk á tilfinningu að þetta væri hans hobbí, að keyra leigubíl og bölva öllum hinum í umferðinni.

Eftir að hafa dröslað töskunum upp á fjórðu hæð arkaði ég í skólann. Þar stússaðist ég aðeins á netinu fram að hádegismat. Eftir hádegi var svo farið í gegnum helstu atriðin í skapandi hópstarfi og við sáum áhugavert myndband um fyrirtæki sem sérhæfir sig í skapandi hönnun (alveg stolið úr mér í augnablikinu hvað það heitir). Síðan var okkur skipt í hópa og "viðskiptavinir" okkar kynntu sín verkefni. Þar sem nokkrir í mínum hóp voru á leið í fyrirlestur þegar tímanum lauk náðum við ekki að ræða málin en skiptumst á emilum og ætlum að reyna að taka skurk á morgun.

Á leiðinni heim kíkti ég svo við í Netto, sem er eins konar Bónus þeirra bauna. Þar er merkilegt vöruúrval (og/eða skortur á vöruúrvali). Þeir voru t.d. bara með eina tegund af sjampói, eina af tannkremi og ég fann venjulega handsápu hvergi. Hins vegar eru þeir með stór safnborð með allra handa samtíningi. Þar var að finna hlið við hlið; þráðlausa límbyssu (sem ég held að búningadeild Hugleiks myndi sko fíla), prentarapappír, smurolíu fyrir utanborðsmótora, koltvísýringshylki í manndrápsstærð, björgunarvesti, Sabrina the teenage witch - leikur fyrir Gameboy og gufustraujárn. Ég keypti brýnustu lífsnauðsynjar; mjólk, jógúrt, AllBran, banana, appelsínusafa, sjampó og fyrstu ölkippu dvalarinnar. Maður er nú einu sinni ÍíÚ (Íslendingur í Útlandi).

Eftir að hafa skutlað þessum varningi og skólatöskunni upp í herbergi fór ég í drjúga skoðunarferð um nágrennið og kynnti mér hvaða verslun og þjónustu er að finna á svæðinu. Hér er mikið um læknastofur, sjúkraþjálfa, nuddstofur og fótsnyrtistofur. Á tvöhundruð metra fresti er lítil pissería og hér er líka ágæt beyglusjoppa sem veitir stúdentaafslátt og sá mér fyrir kvöldmat í kvöld. Það er stutt í hraðbanka og ég tók leigu fyrsta mánaðarins út úr einum slíkum. Ef ég skyldi svo fá heimþrá er Dominos pissustaður alveg í nágrenninu, en mér þykja nú hinar pisseríurnar meira spennandi (when in Rome...) (nema auðvitað að ég er í Köben, ekki Róm).

Í fyrramálið er ætlunin að græja danska kennitölu og ef tími gefst til að kíkja í banka og sjá hvort mér tekst að fá viðunandi díl þar. Mér skilst að það sé mjög breytilegt eftir bönkum og jafnvel útibúum. Ég vil hins vegar endilega fá Dankort (dansk debetkort) og til þess þarf ég að stofna reikning einhversstaðar. Ég sé ekki fram á að hafa neinar hérlendar tekjur þannig að þetta verður eitthvað millifærslufitl millum landa.

Skyrturnar mínar hafa ekki haft sérlega gott af flutningunum, þær eru allar meira eða minna krumpaðar í klessu þannig að ég sé fram á að þurfa annað hvort að sníkja straujárn af Andreas (strauborð hef ég séð í íbúðinni) eða finna þvottahús sem gæti þá pressað jakkaföt í leiðinni. Ég þarf að finna út úr þessu fyrir víxluveislu skólans sem verður á föstudag með kvöldverði, dansiballi og fíneríi. Svo þarf ég að bretta upp ermar og taka til við að gera herbergið heimilislegt. Ég sé fram á að fara í IKEA um næstu helgi og reyna þar að kaupa rúm, léttan fataskáp(a) (jafnvel úr taui) og kannski hægindastól. Spurning með borð sem yrði bæði skrif- og matarborð. Með tíð og tíma myndi ég svo græja einhverskonar borð/skenk undir sjónvarp og bækur. Í göngutúrnum gekk ég fram hjá byggingu þar sem starfræktur er stærsti flóamarkaður í Köben og það er spurning um að reyna að rölta þangað á opnunartíma - jafnvel áður en ég skelli mér í IKEA (sem er stórvægileg aðgerð, enda engin slík í miðbæ Köben). Ég held ég noti ferðatöskurnar sem kommóðu fyrst um sinn og svo er ég náttúrulega með leðursófann sem fylgdi herberginu. Sem bráðabirgðagardínur fékk ég gamalt sængurver hjá Hönnu Birnu sem smellpassar. Spurning hvort ég græja mér ekki bara spennustöng og nota sængurverið sem gardínu! (Núna er því bara krækt bak við opnanlegu fögin).

Ég held svei mér þá að með smá dugnaði geti ég gert þetta herbergi prýðilega huggulegt. Galdurinn er að finna jafnvægi milli hluta sem eiga að endast og ég geri ráð fyrir að taka með mér heim á Klakann að námi loknu, bráðabirgðahúsgagna og þess að koma mér ekki upp stærri búslóð en svo að auðvelt sé að flytja ef hagir mínir breytast (eða ef sambúð okkar Andreas skyldi ekki ganga upp).

Jæja, tími til kominn að skríða upp í bráðabirgðabólið og sjá hvort mér verður svefnsamt í nýju umhverfi. Chiao.


< Fyrri færsla:
Kominn með herbergi
Næsta færsla: >
Risinn af sóttarsæng
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry