Risinn af sóttarsæng

Fimmtudagur var án efa minnst spennandi dagur Danmerkurdvalar minnar. Hann hófst með því að ég vaknaði um tvöleytið um nóttina við fyrirgang mikinn neðan þilja og næsta rúmum sólarhring var varið í rúminu bryðjandi parasetamól og parkódín (parasetamólið kláraðist), með nokkuð reglulegum hraðskákum við páfann sem ekki verður nánar lýst hér af tillitssemi við lesendur.

Það bjargaði mér að eiga tiltæka "Angels and Deamons" eftir Dan Brown (bókin sem hann skrifaði á undan DaVinci lyklinum) og spændi hana í mig eftir því sem þrek og nenna leyfðu. Ágætis bók, þótt ekki sé laust við að söguþráðurinn minni mjög á "Lykilinn". Aðalpersónan er sú sama, í upphafi bókarinnar er virtur vísindamaður myrtur af aldagamalli leynireglu sem hefur öldum saman eldað grátt silfur við kaþólsku kirkjuna og margir af virtustu vísindamönnum veraldarsögunnar hafa tilheyrt. Hetjan hefur leit að morðingjanum með aðstoð myndarlegrar og einhleyprar dóttur hins látna og þau grúska í fornum skjölum sem leiða þau í eins konar ratleik um fornar byggingar Rómar í leit að vísbendingum. Hljómar kunnuglega?

Á föstudagsmorgun var pestin að mestu að baki, ég skrapp út í hressingargöngu og um hádegið var ég orðinn nógu hress til að fara í skólann og fylgjast með kynningum á afrakstri kynningarvikunnar, þ.e. kynningu á þeim verkefnum sem hóparnir 12 hafa unnið undanfarna 3 daga. Mér þótti mikið til koma hvað hóparnir voru almennt að skila góðri vinnu - næstum allir höfðu unnið mjög frambærilegar grafískar tillögur að nýrri útgáfu vefjanna sem þeir voru að fást við. Einn hópurinn hafði m.a.s. sett sína tillögu upp í vefumsjónarkerfi og sýndu lifandi vef.

Minn hópur hafði unnið vel þennan dag sem ég var fjarverandi og Dorthe, sjálfskipaður grafíker hópsins, hafi unnið mjög flotta tillögu að grafík. Nokkuð sem ég hefði ekki talið framkvæmanlegt á svona stuttum tíma, en það skýrðist að hluta af því að hún gat byggt vinnu sína á útliti sem hún hafði áður unnið.

Kynningarnar fóru þannig fram að hver hópur fékk fimm mínútur til að kynna sína vinnu og tillögu að lausn á verkefninu (sem fólust öll í endurskilgreiningu og endurskipulagningu vefsvæða). Tíminn var tæpur og flestir lentu í bjöllunni, þ.e. voru stöðvaðir með bjölluhringinu verkefnisstjórans. Næst fengu "kúnnarnir" og stjórnandi námslínunnar færi á að spyrja spurninga og ræða sínar skoðanir á tillögunum. Þegar þeir fjórir hópar sem voru með viðkomandi verkefni höfðu lokið sér af var tekið stutt hlé, eftir það tilkynntu kúnnarnir hvaða tillögu þeim hefði litist best á og viðkomandi hópur var verðlaunaður með freyðivínsflösku.

Okkar kynning tókst ágætlega, og þótt við höfum ekki unnið verðlaun í okkar verkefni held ég samt að við höfum verið mjög nálægt þeim hóp sem þótti hafa bestu kynninguna. Ég held að okkar tillaga hafi verið allt eins vel heppnuð (ef ekki betri) en miðað við þá kríteríu sem dómararnir settu upp skoraði þeirra kynning ívið fleiri stig en okkar.

Meðfram kynningunum náði ég að kíkja aðeins á netið og m.a. að ganga frá sölu á bílnum mínum. Held ég sé að fá alveg viðunandi verð fyrir hann og ágætt að vera búinn að afgreiða það mál.

Svo var brunað heim til að undirbúa fyrstu fest vetrarins...


< Fyrri færsla:
Flutningadagurinn
Næsta færsla: >
Festarjöfnun í garði
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry