Garðar grass og konungs

(Er enn að vinna upp skuldahala dagbókarfærslna). Á sunnudag var enn einn dagurinn með brjálaðri blíðu. Ég hafði uppi ráðagerðir um að fara í skólann og reyna að sýna smá dugnað við tölvuskjá, en þetta veður leyfði ekkert slíkt. Nú gilti bara að túrhestast um borgina.

Ég greip hina stórmerku kortabók Kraks og fletti upp á Seværdigheder. Þar var framarlega í stafrófsröðinni Botanisk Have, í miðborginni rétt hjá Norðurporti og lá því vel við Metróhöggi. Ég hef í gegnum tíðina haft mjög gaman af Grasagarðinum í Laugardal og fer þangað nokkrum sinnum á sumri. Það lá því beint við að skella sér í grasagarð Kaupinhafnar og spóka sig í sólinni.

Það var alveg heiðskírt þennan dag og eflaust vel yfir 20 stiga hiti. A.m.k. þorði ég ekki annað en kaupa mér gosdrykk í flösku áður en ég rölti inn í garðinn til að tryggja að ég bráðnaði ekki niður.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem ég tók og segja eflaust meiri sögu en mínar langlokur myndu gera einar og sér.

Botanisk Have

Fiskur í andapollinum

Eins og vera ber voru endur á tjörninni í garðinum, en þegar maður gekk yfir göngubrú yfir tjörnina og gjóaði augum á það hvað fólk væri að glápa á kom fyrst í ljós að nokkrar skjaldbökur syntu í makindum inn á milli andanna og létu sér fátt um finnast þótt fiðurféð reyndi að gogga til þeirra. Skjaldbökurnar kipptu bara hausnum undir skelina og héldu svo áfram sínu dóli. Fiskar á stærð við smáurtur héldu sig líka við brúna og þyrptust að ef brauðmylsna féll í tjörnina. Við og við synti svo stærðar vatnakarpi (?) framhjá og einnig sást bregða fyrir dökkleitum fiski sem ég hef grun um að hafi verið einhvers konar gedda. Eins og sjá má af samanburðinum við öndina var karfinn engin smásmíð.

Vatnaliljur

Fiðrildi í trópíska gróðurhúsinu

Köngulóarvefur

Ég hef ekki orðið var við að danskar köngulær séu áberandi stærri en þær íslensku, en þær eru mun iðnari við að spinna köngulóarvefi sem er að finna hvarvetna og geta orðið lygilega stórir.

Hitinn var töluverður og ég yfirgaf garðinn í leit að smá blæstri. Fyrir tilviljun lá leið mín framhjá Kongens Have á leið á Kóngsins Nýjatorg. Í garði konungs var alvöru dönsk sumarstemmning, það fyrsta sem maður sá var dönsk stórfjölskylda sem hafði stungið tylft pappírsflagga niður í grasið í stóran hring og sat svo í miðjunni með fjölda teppa og dúka og snæddi nesti. Allt um kring var svo fólk að leik, spjalli eða í sólbaði.

Leikið í garði konungs

Þarna spókaði ég mig um í hátt í klukkutíma, stúderaði mannlífið og teygði úr mér í grasinu. Rannsókn mín leiddi í ljós einn þátt sem sárlega vantar í mannlífsflóruna á Austurvelli á sólskinsdögum; fleiri bikiní!!!

Sunnudagsmaturinn var framreiddur af pissustað í nágrenninu og kvöldinu varið í afslökun fyrir framan sjónvarpið hans Andreasar (sem var lítið sem ekkert heima um helgina). Ósköp dejligur dagur.


< Fyrri færsla:
Afsakið hlé
Næsta færsla: >
Yfirdýnan sem hvarf
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry