Yfirdýnan sem hvarf

Á mánudagsmorgun lagði ég loks í margboðaðan IKEA leiðangur, tók Metróinn upp á Norðurport og tók þaðan ofurvagninn 150S út fyrir borgarmörkin. Ég reyndi að fylgjast með í kortabókinni minni en það gekk ekkert allt of vel þar sem leið okkar lá leiðinlega mikið á mörkum þriggja mismunandi korta. Ég náði þó áttum á síðustu stundu og streymdi út úr vagninum ásamt drjúgum hluta samferðafólks míns.

Þegar út úr vagninum kom var ég við það að grípa kortabókina á ný til að ná áttum þegar mér varð litið yfir götuna og við blasti hið fyrirheitna land, sænsk vin í dönsku iðnaðarhverfi. Þessi IKEA verslun myndi ég skjóta á að sé um það bil 2,5 sinnum stærri en sú í Holtagörðum, en að mörgu leiti einfaldari í notkun þar sem húsgögn eru öll á annarri hæðinni og húsbúnaður og vefnaðarvara á þeirr fyrstu. Ég setti engin met í skilvirkni, heldur þvældist fram og til baka og velti fyrir mér hverri (danskri) krónu. Til dæmis sleppti ég að kaupa koll með hægindastólnum sem mig hefur lengi langað í, en þess í stað keypti ég "næstum því rússkinnsáklæði".

Gardýnurnar sem ég var kominn með í körfuna (og voru ekki sérlega dýrar) fóru aftur upp í hillu þegar ég fékk þá flugu í höfuðið að nota enn billegri rúmyfirbreiðslur sem gardýnur. Þar sem ég er ekki með saumavél hér í útlandinu keypti ég gardínuhringi með klemmu sem notaðir verða til að hengja herlegheitin upp. (Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hengi rúmfatnað úr IKEA fyrir gluggana mína, flestar gardínurnar á Flyðrugrandanum eru lök sem ég saumaði gardínuborða á).

Til að gleðja móður mína splæsti ég einnig í hræbillega tuskumottu, hún er svo hrifin af mottum - sérstaklega skrautlegum tuskumottum.

Að afloknu miklu hringsóli um verslunina stillti ég mér upp í biðröð við kassann með fulla innkaupakörfu af alls kyns varningi og vörulagerskerru með rúmdýnu, hægindastól, fataskáp og skrifborði. Vísa frænka sá um greiðslur og ég dröslaði kerrunum mínum að borði merkt "heimsending". Þar samdi ég um bílfar fyrir varninginn og mig auk liðsinnis bílstjórans við að drösla dýnunni upp á fjórðu hæð (enda engin léttavara, boxdýna upp á 200*140 cm). Mér var tilkynnt að það væri um hálftíma bið eftir bíl þannig að ég ákvað að skoða mig aðeins um í verslanaklasanum.

Ég rölti mér inn í El Giganten og um leið og inn var komið blasti við að þetta myndi vera móðurskip ELKO, sömu innréttingar og merkimiðar, allt að því heimilislegt. Eitt sá ég þó sem var frábrugðið íslenskri ELKO verslun, í gramskössunum við afgreiðslukassana var auk hinna hefðbundnu kassa með hallærislegum geisladiskum, höfuðfónum og fjöltengjum, kassi merktur Erotik. Þar sýndist mér vera drjúgt úrval þess sem vér Íslingar köllum yfirleitt klámmyndir og felum í sérstökum til þess bærum verslunum.

Því miður vannst mér ekki tími til að gera þessari uppgötvun nánari vísindaleg skil þar sem sendibílastöðin hringdi að tilkynna mér að bíllinn væri kominn (heilum 20 mín. á undan áætlun).

Þegar heim var komið drösluðum við bílstjórinn dýnunni upp við illan leik og ég fór síðan ótölulegan fjölda ferða með afganginn af varningnum. Þegar ég settist niður úrvinda af hita og svita og horfði stoltur yfir kassastaflann áttaði ég mig á því að yfirdýnuna sem ég hafði valið af kostgæfni var hvergi að sjá. Mín fyrstu viðbrögð voru að rölta niður og athuga hvort hún hefði nokkuð gleymst utan við dyrnar (sem ekki var merkjanlegt), næst var að kíkja á tæplega meterslangan strimilinn til að sannreyna að dýnan hefði verið slegin inn í kassann. Það var ekki heldur merkjanlegt.

Nú voru góð ráð dýr og undran mín töluverð. Ég lygndi því aftur augum og reyndi að rifja upp barning minn með kerrurnar tvær í ógnarlager IKEA. Þannig komst ég að því að ég myndi hafa tekið dýnuna úr kerrunni til að koma stóru dýnunni haganlega fyrir - og hef síðan gleymt að setja hana aftur í kerruna.

Ekki dugði að gráta Björn yfirdýnu heldur taka fram verkfæri og leita óbeinna hefnda.

Það lá við að fram brytust tár þegar ég tók upp fyrsta IKEA sexkantinn minn í danaveldi enda hafði ég skilið ófáa frændur hans eftir heima þegar ég tók þá ákvörðun að skilja verkfæratöskuna eftir á norðurslóðum. Hins vegar var það strax á annarri skrúfu með þessum nýja sexkanti að ég lenti í bölvuðu ekkisens brasi og flugu mér þá í hug orð Júlíusar Sesars sem hann missti af vörum sér þegar hann var önnum kafinn við að mublera fyrstu íbúðina sína í Róm; "E tu IKEA!"

Allt hafðist þetta að lokum, en yfirdýnan var enn jafn fjarverandi og áður og hræbillegu þrýstistangirnar sem ég taldi mig hafa keypt reyndust vera hræbillegar þrýstingslausar gardínustangir þannig að gamla sængurverið sem gegnt hefur hlutverki gardínu það sem af er dvöl minni fékk að hanga áfram enn um sinn.

Í dag (miðvikudag) fór ég svo í leiðangur eftir skóla í Amager-útibú Jysk (sem er móðurskip Rúmfatalagersins) og leitaði þar dyrum og dyngjum að yfirdýnu í hæfilegri stærð (enda nennti ég ómögulega að fara í annan IKEA leiðangur). Dýnufjandinn var ekki til á staðnum, en ég lét panta fyrir mig eintak sem ætti að berast í næstu viku og kjagaði svo heim með þrýstna gardínustöng um öxl.

Eftir heimkomuna fann ég mig tilneyddan að taka örlitla slökun í láréttri stöðu og fór síðan út í myntvaskerí að skola úr brókum og bolum. Sú svaðilför tókst með nokkrum ágætum (þökk sé liðlegri danskri húsmóður sem gat gefið mér ábendingar um hvernig standa skyldi að málum). Reyndar tókst þurrkun ekki alveg sem skyldi þannig að nú er rökum dökkum flíkum dreift á víð og dreif um herbergið. Það mun ganga betur næst.

Um mjög síðbúinn kvöldmat sáu síðan nýjustu vinir mínir á índverskum pizzastað sem féllust á að baka handa mér eina tólftommu gegn hóflegri greiðslu. Sat vel með einum litlum öllara.

Nú skal stefnt í bólið. Stefni á að segja nánar frá námsmálum mínum og fregnum af litla leikþættinum mínum næst þegar ég set mig í skáldlegar stellingar. Nú skal sofið.


< Fyrri færsla:
Garðar grass og konungs
Næsta færsla: >
Á uppleið á leið á svið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry