Helgin á handahlaupum

Það er vissulega svolítið skondið að skrifa dagbókarfærslu um nýliðna helgi á þriðjudagskvöldi og vonast til að geta sett hana á vefinn seinnipart miðvikudags, en svona er líf háskólanemans - ekki alltaf eins og hversdagslíf hinna.

Í síðustu "alvöru" dagbókarfærslu var nýlega brostið á með fredagsbar sem var hreint prýðilega vel heppnaður. Sólin skein og barinn var opnaður út á "verönd" þar sem nemendur og kennarar sátu og höbðu það huggulegt. Stór hluti af "mínum" hóp var að koma úr fyrirlestrum í Java forritun þannig að þarna var drjúgur hópur sem ég þekkti og sat og spjallaði við.

Á leið heim kom ég við í bónusígildinu Fakta. Ekki var merkjanlegt að þessi eini bjór hefði teljandi áhrif á kaupgetuna. Þó mætti ég á leið frá skóla að verslun manni sem var að smjatta á frönskum kartöflum úr poka og æsti það upp í mér snakkþörf. Óþarfi dagsins var því poki af frönskum kartöflum sem ég spændi hálfan í mig á þessari fimm mínútna leið sem er frá búðinni og heim. Áfengisáhrifin voru raunar ekki meiri en svo að ég tók eftir að afgreiðslustúlkunni urðu á mistök þegar hún var að afgreiða mig og bjórkippan (hóst) var tvískráð, það var leiðrétt án þess að til handalögmála kæmi og ég tölti heim með opinn frönskupokann og mylsnu í munnvikinu.

Eins og fyrirheit höfðu verið gefin um fór ég í myntvask um kvöldið. Reyndar varð ekki mikið úr því að ég læsi kennslubókina sem ég hafði með mér, heldur var ég aðallega í því að skoða dagblöðin. Ég er smám saman að komast upp á lag með þurrkarana, en rúmfötin voru reyndar örlítið rök þegar ég lagðist til svefns - en þó varla svo að orð sé á gerandi.

Á laugardagsmorgun vaknaði ég fyrir allar aldir (um sjöleytið!) og tók metró og lest á uppboð á haldlögðum reiðhjólum. Áhyggjur mínar af danska talnakerfinu reyndust óþarfar þar sem uppboðshaldarinn hafði góða stjórn á öllu og hækkanir fóru fram eftir ákveðnu kerfi þannig að mönnum nægði að gefa til kynna að þeir vildu hækka boðið. Hjólaúrvalið var reyndar ekki sérlega beysið og það er skemmst frá því að segja að ég keypti mér ekki hjól. Þó var eitt sem ég hefði verið til í að kaupa, ég bauð reyndar ekki í það en það fór á verði sem var í hærri kanti þess sem ég hefði verið tilbúinn að borga. Þar á bætist að við að kaupa svona vanskilahjól hefur maður auðvitað engan lykil að lásnum (fyrir utan bauðst glaðbeittur maður með slípirokk til að saga upp lása fyrir 20 kr danskar).

Þess í stað lá leiðin aftur yfir á Amager með viðkomu í Christianshavn. Ég kíkti aðeins í Christianíu en þar var ekki sérlega mikið líf, enda rétt að skríða í hádegið þegar þangað kom og fátt að sjá nema túrista og sölumenn að dunda sér við að stilla upp vörunum sínum.

Eftir pylsuát lá leiðin með metrónum suðureftir Amager. Í bjarsýni minni steig ég út við Bella Center og hélt að þar væri eitthvað líf að finna. Svo var ekki og í raun var eina (óbeina) lífsmarkið köngulóarvefurinn sem ég gekk inn í við aðalinnganginn. Ég tók því næsta metró áfram suðureftir til fyrirheitna landsins Fields sem er ný verslunarmiðstöð í Kringlu/Smáralindar klassanum. Ég á reyndar alltaf erfitt með að meta stærðir svona miðstöðva en ég fékk á tilfinninguna að Fields sé ívið stærra en Smáralindin - þó ég þori ekki að sverja fyrir það.

Þar er meðal annars að finna stórmarkaðinn Bilka og eftir nokkra umhugsun sló ég til og keypti mér nýtt hjól (18 gíra) á 900 krónur danskar (rétt tæpar 11þ. íslenskar) sem reyndar skreið upp í um 1100 kall með viðurkenndum lás og ljósum. Kassaklæddu hjólinu dröslaði ég svo með mér aftur í metróinn og selflutti heim að dyrum með nokkuð tíðum pásum til að hrista aftur blóð fram í fingurgómana. Ég geri mér engar vonir um að þetta hjól eigi sér hærri en 3-4 ára líftíma, en ég þarf ekki á því að halda nema í eitt og hálft ár og get vonandi komið því í verð áður en ég sný aftur á klakann.

Þegar heim var komið lagði ég hald á verkfærakistu Andreasar og fór á stuttbuxunum út í garð að setja dýrðina saman. Ekki get ég sagt að ég hafi sett nein hraðamet, en þetta hafðist að lokum. Að vísu vantaði að snyrta nokkra langa víra (enda naglbítur Andreasar án efa sá langlélegasti sem ég hef nokkurn tíman komist í tæri við) (hér væri skáldlegt að halda því fram að ég hefði kynnst þeim þónokkrum um dagana, þ.e. naglbítunum, en það væri óþarfa skreytni og ýkjur). Ég var ekki með pumpu þannig að ég fór ekki reynslutúr heldur skellti gripnum í hjólageymsluna og skolaði á mér skrokkinn (nota bene ekki í garðinum).

Ég fór svo í kvöldmat til Hönnu Birnu og Jesper og við tókum svo strætó niður í bæ og sátum í rólegheitum á krá við Nýhöfn þar sem vinur Hönnu var að spila sem trúbadúr. Mér skilst að það hafi verið með eindæmum fátt á staðnum þannig að þetta var allt mjög rólegt og afslappað. Um tvöleytið punkteraðist ég svo og rölti í metróinn.

Eitthvað var ég lengi að sofna og svaf laust, þannig að ég var ekkert að sperra mig á fætur á sunnudeginum. Ekki hvað síst þar sem úti var rigning og rok, reyndar í fyrsta skipti í langan tíma sem ekki var brjáluð blíða. Þess í stað dedúaðist ég aðeins heima við, braut saman þvott og raðaði í fataskápinn. Um kaffileytið fór ég svo aftur til Hönnu Birnu og Jesper, að þessu sinni til að spila Risk með þeim skötuhjúum og Nikolai vini þeirra. Því lauk svo með yfirráðum þess síðastnefnda yfir tilskildum heimsálfum um tíuleytið og ég var kominn heim rétt fyrir ellefu.

Á mánudagsmorgun reyndist afskaplega freistandi að kúra svolítið fram eftir og var komið fram undir hádegi þegar ég fór á fætur og eftir hádegismorgunverð réðst ég á eldhúsvaskinn með þvottasvamp að vopni og linnti ekki látum fyrr en hann var orðinn spegilgljáandi.

Að því afreki unnu rölti ég yfir í ISO sem er stórmarkaður hér rétt hjá af þeirri týpunni sem maður er vanastur heima á Íslandi (þ.e. með töluvert meira vöruúrval en lágverðsbúðirnar sem ég fer fram hjá á leið minni úr skólanum). Þar keypti ég meðal annars fleiri þvottasvampa og eftir stutta millilendingu í bakaríi ISO urðu baðherbergisvaskurinn og handsturtan næstu fórnarlömb hinnar óvæntu hreingerningarþarfar minnar.

Þá lá leiðin aftur út í rölt um nágrennið og úr því sneri ég aftur með "nýjan" tölvuleik (hóst) og tvær hjólapumpur. Pumpuofgnóttin skýrist af því að í Amager Center byrjaði ég á að fara í hjólabúð og keypti þar buxnaskálmaklemmur, enda vill svo til að þær buxur sem ég skarta helst þessa dagana eiga það sammerkt að vera frekar útvíðar í sniðinu (sniðunum?) og í leiðinni keypti ég hjólapumpu til að blása lífi í fákinn. Þá kom ég við í verkfærabútík til að kaupa ódýra töng sem gæti unnið það verk sem áðurnefndur naglbítur réð ekki við. Þar reyndist ég geta fengið fyrir sama verð og töng hjólasett með lyklum, slönguviðgerðakitti, pumpu og samfellanlega töng (sem heitir örugglega eitthvað merkilegt sem ég ekki man). Ég ákvað að skella mér á hjólasettið og hélt því heim með tvær pumpur.

Þegar heim var komið reyndist Andreas impóneraður af þrifnaðaræði mínu og ekki síður þegar ég kenndi honum trix efnafræðinga við erfiðum stíflum; heitt sápuvatn. Vaskurinn á klósettinu tók skyndilega upp á þeim fjanda að stíflast, en með slettu af uppþvottalegi og nýsoðnu vatni opnuðust þær gáttir aftur.

Kvöldið fór svo að mestu í að prufukeyra nýja leikinn; gamla Hitman leikinn sem ég fékk á góðum prís og var viss um að skjákort Surtlu litlu réði við. Sem það og gerði.

Á þriðjudag var svo langur skóladagur frá 9 til 19 og eftir glæsitilþrif í eldhúsinu (instantnúðlur) pumpaði ég í dekkin á hjólinu og prufukeyrði græjurnar í settinu. Líklega er best að orða það þannig að ef þetta sett er "Professional Quality" vildi ég ekki bjóða mikið í amatör útgáfuna. Aðallega var það töngin sem pirraði mig og reyndist litlu betri en títtnefndur naglbítur.

Nú er hjólið hins vegar tilbúið og á morgun (miðvikudag) stefni ég á að hjóla í fyrsta sinn í skólann. Vona bara að ég haldi mér á réttum kili, enda er ég ekki búinn að græja skipsfraktina þar sem hjólahjálminn minn er að finna.


< Fyrri færsla:
Ný vinnuvika hafin...
Næsta færsla: >
Danir... vakna of snemma
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry