Danir... jórtra ekki Extra

Í hópvinnu í æfingaverkefni fyrstu vikunnar dró ég einhvern tíman upp poka með silfurlituðu Extra upp úr axlartöskunni minni, fékk mér stykki og lagði pokann á mitt borðið með þöglu boði um að menn fengju sér. Félagar mínir létu sér nægja að gjóa augum á pokann og enginn gerði sig líklegan til að fá sér, þannig að hann hvarf aftur ofan í tösku. Ég hugsaði með mér að það væri aldeilis að menn væru í nammibindindi...

Eftir kaffihlé birtist pokinn aftur og í þetta sinn lét ég mér nægja að gjóa augunum til hinna og sjá hvort einhver sýndi áhuga, þá kom spurning sem ég var alveg óviðbúinn: "Er þetta tyggigúmmí?" (Spurt á dönsku að sjálfsögðu). Þá rann upp fyrir mér ljós að ég hafði hvergi séð Extra pakka í Danaveldi. Hér tyggja menn V6 og Stimirol (hvernig sem það nú skrifast).

Ég hafði ekki spáð í það áður, en Wrigleys er líklega amerískt (ég er búinn með alla pakkana mína þannig að ég get ekki lesið á þá). Hér virðast amerísk vörumerki sjaldséð, alræmt er auðvitað hvað Íslendingar eiga erfitt með að finna Cheerios (eða eiga erfitt með að finna ekki Cheerios, sem er kannski nákvæmara orðalag). Blessunarlega er ég ekki háðari því en svo að mínar All Bran flögur út á jógúrt hafa reynst mér prýðilega það sem af er dvalar.

Annað sem ég hef tekið eftir er að Toro matvörur sjást ekki í verslunum. Það gleður mig auðvitað og nú kynni ég mig eingöngu sem "Toro... ligsom den spanske tyr" - og sleppi alveg að frábiðja mér norsku súpurnar. Knorr er einráður á þeim markaði (og framburðurinn er örlítið öðruvísi en á íslensku!)

Maarud (sem rannsókn hefur leitt í ljós að er líka norskt) sést heldur ekki, en flögurnar eru til í nákvæmlega eins umbúðum, framleiddar í Danmörku undir öðru nafni (sem ég man ekki í svipinn) en örugglega með einhverskonar samningi við Norðmenn.

Svo virðast Danir ekki mikið fyrir súkkulaðikex, það er hending að finna gott úrval af því í stórmörkuðum - sem mér þykir miður.

En bjórinn stendur alveg undir væntingum...


< Fyrri færsla:
Að koma sér fyrir í skápnum
Næsta færsla: >
Gamall brandari ásækir mig
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry