Danir... drekka vand í öllum regnbogans litum

Eins og með margt annað nota Danir orð yfir drykkjarvörur sem vér Íslendingar könnumst vel við, en reynast svo merkja eitthvað allt annað þegar á hólminn er komið.

Til dæmis þýðir "øl og vand" í raun "bjór og gosdrykkir". Ekki það að nokkur sómakær Íslendingur misskilji hvað danskurinn á við með øl, en eflaust hafa einhverjir lyft augnabrúnum yfir því að eingöngu sé boðið upp á bjór og vatn á virðulegum samkomum.

Til að bæta gráu ofan á svart þýðir sodavand alls ekki sódavatn, heldur gos almennt. Ég hef reyndar ekki brennt mig á neinu af ofantöldu enda var Hanna Birna búin að deila með mér neyðarlegum reynslusögum af sér að reyna að fá danska barþjóna til að selja sér sódavatn.

Það sem ég brenndi mig hins vegar á er það hvað baunar kalla litlausa sódavatnið, það heitir nefnilega Danskt vand.

Kranavatnið hér á Amager er þokkalegt, en mér finnst samt vanta eitthvað upp á bragðgæðin, þannig að ég hef gert tilraunir til að eiga lindarvatn á flösku í ísskápnum til að dreypa á við sparileg tilefni. Það hélt ég mig einnig vera að gera þegar ég á föstudaginn greip eins-og-hálfs-lítra flösku á tilboði í ISO frá dönsku brugghúsi, merkt danskt vand, og skellti á borðið með kálfasteikinni. Flöskufjandinn hvissaði svo hressilega þegar ég opnaði hann og reyndist rammropfylltur.

Rifjaðist þá upp fyrir mér áðurnefnd staðreynd með Danskt vand (sem ég átti að vita). Ég greip til þess ráðs að Halla flöskuna (en sú sögn heitir í höfuðið á Hallgrími Jónssyni fyrrum vinnufélaga mínum og felst í því að beita mekanískum aðferðum til þess að breyta kolsýrðu vatni í léttkolsýrt vatn) og sötraði það svo með ágætri lyst - en hefði heldur kosið ískalt goslaust lindarvatn...

En léttkolsýrða vatnið hentar vel til að fríska aðeins upp á appelsínusafa og ég er einmitt að sötra á slíkum drykk í þessum orðum skrifuðum.


< Fyrri færsla:
Lifað á danska velferðarkálfinum
Næsta færsla: >
Afkastalítill laugardagur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry