Afkastalítill laugardagur
04. október 2004 | 0 aths.
Á laugardags-"morgun" vaknaði ég laus við þynnku, en ekki laust við að óbeinar reykingar og langvökur sætu aðeins í mér. Eftir morgun/hádegisverð og smá dagblaðalestur stóð ég sjálfan mig að því að vera að horfa á norskan menningarumræðuþátt með sænskum texta! Að vísu var viðmælandi þáttarstjórnandans áhugaverður og skemmtilegur - en ég ákvað að nú væri nóg komið og að bregða frekar undir mig hjólhesti og fara út í sólina.
Leið mín lá yfir í Christianshavn (sem er steinsnar frá mér) og þar staðsetti ég meðal annars íslenska sendiráðið (svona ef ske kynni að ég þyrfti að grípa til þess í neyð). Snjallt að hafa það svona nálægt Christianíu (sem líka er í göngufæri frá mér) og þar með því sem í mínum huga er helsti viðskiptavinahópur sendiráðsins, íslíngar sem hafa gefist upp á bóhemalífinu og langar heim. En hvað veit ég.
Norðar á hálfeyjunni er nýja óperuhúsið sem gamli Mærsk var að afhenda dönsku þjóðinni um daginn. Stór hluti hennar (þjóðarinnar, ekki hálfeyjarinnar) var einmitt á laugardagsvappi þarna utan við húsið (sem ekki var opið nýjum eigendum sínum) og í sameiningu gláptum við eins og naut á nývirki.
Ég hafði ekki séð myndir eða teikningar af húsinu þannig að það fékk að impónera mig frá grunni.
Ég held að arktitektar nútímans hljóti virkilega að leggja mikið á sig við að finna eitthvað sem er nógu brjálæðislega frumlegt til að þeirra minnisvarði verði sem eftirminnilegastur. Í tilviki óperunnar er það þakskeggið sem er út úr allri kú - en óneitanlega tilkomumikið.
Helmingur viðstaddra var með stafræna myndavél fyrir andlitinu - aðrir viðstaddir voru betri helmingar sem reyndu að gæta þess að tæknióðir eiginmennirnir féllu ekki í sjóin við að reyna að ná sem flottustu sjónarhorni.
Að sjálfsögðu gat ég ekki minni maður verið:
Eftir að heim var komið tók við smá letilíf, síðan hitaði ég upp afganga frá föstudeginum og kláraði að innbyrða velferðarkálfinn.
Fyrir helgina hafði ég hripað niður nokkur atriði sem ég ætlaði að reyna að hrinda í framkvæmd. Laugardagskvöld var ekki notað í neitt þeirra, en þess í stað vakti ég fram undir klukkan 3 við að klára Hitman - og tókst (að mestu leyti).
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry