Lifað á danska velferðarkálfinum

Klisjan um Íslendingana sem lifa á danska velferðarkerfinu er vel þekkt (og reyndar má rökstyðja að ég sé í þeirra hópi, enda óvíða í heiminum hægt að komast í ókeypis mastersnám). Á föstudag varð ég hins vegar svo frægur að komast í kynni við danska velferðarkálfinn og voru þau kynni með miklum ágætum.

Á föstudagsmorgninum hélt ég uppteknum hætti og var ekki alveg jafn röskur á fætur og að var stefnt, en hafði mig þó af stað til að reyna að útvega mér danska innbústryggingu. Ég hafði tekið eftir tryggingaútibúi í göngufæri við mig og nú skyldi drifið í málum. Lauslega áætlað telst mér svo til að innbú mitt hér hafi verðgildi tæpa hálfa milljón íslenskar og ákvað að rúnna það upp í tryggingarþörf upp á 50 þúsund danskar. Mér var vel tekið, en í ljós kom að lægsta tryggingarupphæðin sem þetta tryggingarfélag býður upp á er upp á 350 þúsund danskar (4,2 milljónir ísl.) sem er ívið hærra en ég þarf. Meðfylgjandi væri þó líka "ansvar", þ.e. ef ég veld öðrum skaða - og engin sjálfsábyrgð. Þetta fengi ég fyrir rétt tæpar 2 þúsund danskar á ári. Mér finnst það í hæsta lagi miðað við að hámarkstjón mitt yrði aldrei nema 1/6 af tryggingarupphæðinni.

Ætli ég prófi ekki að senda tölvupóst á nokkur tryggingarfyrirtæki til viðbótar og biðja þau um að gera mér tilboð - núna kann ég fagorðin enda fékk ég útskrifað tilboð með mér heim. Um að gera að sjá hvort þetta blessaða internet dugar til einhvers.

Verður líka fróðlegt að sjá hvaða viðbrögð Skandia Bankinn veitir við meðlagsumsókninni minni...

(Meðan ég man, á fimmtudag fór ég enn í Jysk og að þessu sinni rakst ég á einhvern með viti þannig að ég slapp við að vera með leiðindin sem ég var búinn að mana mig upp í. Er því bjartsýnn á að eignast yfirdýnu næsta fimmtudag - mánuði eftir að ég fór af stað).

Eftir tryggingarheimsóknina fór ég í skólann, þar tók ég yfirlitsmyndir í mötuneytinu á 10 mínútna fresti til að reyna að kortleggja hvernig fólk velur sér sæti og hvað það situr lengi. Hluti af etnógrafískri rannsóknarvinnu í Interaktiondesign kúrsinum mínum. Meira um það síðar.

Síðan sat ég sveittur við PHP forritun og komst loks að þeirri niðurstöðu að stillingar á vefþjóninum hér í skólanum væru líklega að valda því að fína forritið mitt væri ekki að fá öll þau gögn sem það þurfti. Sendi fyrirspurn á fréttagrúppu áfangans og pillaði mér heim, enda fest í aðsigi.

Ég fór í ISO sem er stórmarkaður hérna rétt hjá mér og þótt ég reyndi að passa mig fór ég engu að síður hófstilltum hamförum. Gamla þumalfingursreglan um að maður eigi ekki að fara svangur að versla virðist einnig eiga við hérna megin Atlantsála. Með því að kaupa vítamín (hef grun um að fæði mitt sé í einhæfara lagi bætiefnalega séð), ræstigræjur og litla púrtvínsflösku tókst mér að koma heildarupphæðinni í tölu sem maður kannast við í vikuinnkaupum heima.

Rannsóknir mínar á dönskum innkaupavenjum hafa leitt ýmislegt í ljós (og sumt verið reifað hér). Þar á meðal að það virðist miklu minna um pakkamat hér heldur en heima. Í lágvöruverðsverslununum finnur maður í mesta lagi 1-2 tegundir af pastaréttum í pakka og örbylgjurétti hef ég bara hvergi séð. Eftir mikla leit í ISO fann ég þó loks eina örbylgjuréttalínu og greip með mér tilraunaeintak. Ég velti miklum vöngum yfir því hvað ég ætti að hafa í kvöldmat, enda langaði mig í eitthvað kjarngott þar sem ég sá fram á langt kvöld.

Niðurstaðan varð kálfamedalíur, vandlega merktar "Dansk velfærdskalv", forsteiktir kartöflubátar og Knorr sveppasósa. Þetta matreiddi ég með glæsibrag á gasinu og varð þar með fyrsta "alvöru" máltíðin sem ég tilreiði hér í danaveldi (og frátel þar með pastarétti og annað léttmeti). Vakti stolt hjá undirrituðum.

Talandi um skyndirétti, þá hef ég fyrir satt að í Bretlandi sé það lenska í nýjum einstaklingsíbúðum að í eldhúsinu er bara ísskápur, vaskur og örbylgjuofn enda hægt að kaupa tilbúna dýrindisrétti á slikk í verslunum og mín einhleypa kynslóð steinhætt að elda ofan í sig. En þetta var útúrdúr.

Eftir át, sturtu og rakstur stikaði ég af stað í forpartí til þeirra Lydíu og Astrid sem eru í sama námi og ég og höfðu boðið grúppunni í upphitun. Það var mjög skemmtilegt og ég kynntist betur samferðafólki mínu - sem margt hefur mjög spennandi bakgrunn.

Þaðan fórum við svo um 10 leytið í veislu í skólanum þar sem boðið var upp á hljómsveit og plötusnúð (til skiptis). Prýðisskemtun þótt ekki hafi allir 1400 nemendurnir sem sögur herma að eigi að vera í skólanum látið sjá sig. Rölti þaðan heim um fjögurleytið í prýðilegu veðri og sáttur við lífið og tilveruna.

Það er eitthvað heimilislegt við það að vera á djamminu í útlöndum og vera ekki nema kortér að rölta sér heim.


< Fyrri færsla:
Danir... eru økológískir
Næsta færsla: >
Danir... drekka vand í öllum regnbogans litum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry