Smá lógópæling

Ég er að spökulera í að útbúa mér einföld nafnspjöld til að slá um mig með (og einfalda ferlið þegar afgreiðslufólk þarf að taka niður nafnið mitt).

Í fyrstu tillögu fólst skreytingin eingöngu í smá leikfimi með letrið; leturstærðir og -stefnur. Eftir að hafa ráðfært mig við nokkra annálaða fagurkera fékk ég þá ábendingu að það gæti verið flott að nota líka einhvers konar lógó.

Ég lagði kollinn í bleyti, byrjaði með að teikna skekktan ferning sem var klipptur í sundur til að mynda T (enda nota ég Tóró nafnið óspart hérna úti). Fljótlega sá ég þó að það væri miklu snjallara að nota Þornið og grunnformið breyttist í hring.

Niðurstaðan varð þessi frumskissa:

Hugmynd að nýju lógói

Líklega mun ég nota þetta (eða eitthvað þessu líkt) í daufgráu á nafnspjaldinu - nema auðvitað ég ákveði að hafa það í lit...

Fyrir leturnörda má geta þess að Þornið er í leturgerðinni Bitstream Vera Sans Mono, sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan er komið í tölvuna mína, en grunar helst að gæti hafa slæðst með OpenOffice uppsetningunni.

Ég er ekki meðvitað að stæla neitt lógó sem ég kannast við, en það að nota bókstaf(i) og eitthvert grunnformanna er hugmynd sem liggur við að sé eldri en skreytiþörf mannskepnunnar. Eftir að hafa teiknað þetta upp tók ég eftir að lógó danska tryggingarfyrirtækisins Codan er að einhverju leiti í svipuðum stíl, þótt engin hætta sé á að menn ruglist á þeim tveimur.

Ef einhverjir lesenda minna í hönnunar- og auglýsingageiranum taka eftir að þessi hugmynd sé óheppilega lík einhverju lógói væri vel þegið að fá ábendingu um slíkt áður en ég fer að nota það allt of víða.

Og hver veit nema ég skelli hingað inn stafrænni útgáfu af nafnspjaldinu þegar (ef) það liggur fyrir.


< Fyrri færsla:
Frumsýning gekk vel - skilst mér
Næsta færsla: >
Maður þekkir mann og annan
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry