Kempuskapur með gula hanska

Blessunarlega er ég ekki í sömu sporum og Nína Björk sem í dagbókinni sinni segist alvarlega hafa hugleitt að flytja úr kommúnunni sinni í Bradford vegna óþrifnaðar. Hins vegar verður að viðurkennast að Andreas er ekki mesti snyrtipinni í heimi og jafnvel forhertan piparsvein eins og mig klæjar í fingurna að skrúbba aðeins verstu blettina.

Hér í fjarsýn bauna er meðal annars sýndur þáttur þar sem tvær fraukur taka í gegn subbuleg heimili, vopnaðar hreinsigræjum og dúskskreyttum gúmmíhönskum. Ég hef slysast til að sjá brot úr þessum þáttum og þvílíkur viðbjóður sem hægt er að finna á heimilum fólks. Kannski er ég hálfgert pjatthæsn, en ef ástandið heima hjá mér væri eins og hjá því fólki sem heimsótt er í þáttunum myndi ég aldrei fást til að sýna það alþjóð. Nær væri að brenna kofann.

Ég ákvað um daginn að best væri að ganga á undan með góðu fordæmi með því að taka baðið í gegn og setja þannig smá pressu á Andreas að taka skurk í eldhúsinu eins og hann hefur nefnt að hann ætli að gera. Baðherbergið er nokkuð markað af dansksins forna fjanda; kalkinu sem er ótrúlega fljótt að falla út og hlaðast á allt sem kemst í snertingu við vatn.

Verandi í þessum hugleiðingum vakti athygli mína auglýsing í fjarsýninu um töfraefni í rosalega ósmekklegum fjólubláum umbúðum sem aðeins þurfti að sprauta á kalk, fitubletti og ryð. Í leiðangri mínum í ISO fyrir síðustu helgi (þar sem leiðir mínar og danska velferðarkálfsins lágu saman) rak ég augun í þennan ósmekklega fjólubláa brúsa og rýndi í umbúðirnar. (Ég held að ósmekklegu umbúðirnar séu hluti af auglýsingastrategíunni, því nafnið er með eindæmum óeftirminnilegt en þessum ljóta fjólubláa lit gleymir maður seint). Umbúðirnar kváðu á um gúmmíhanska, góða loftræstingu, ekki mætti anda að sér úðanum og mælt var með öryggisgleraugum og andlitshlíf.

Mér þótti ljóst að þessum skaðræðisvökva yrði ekki auðveldlega beitt í þröngu gluggalausu baðherbergi sem varla nær tveimur fermetrum og ákvað því að róa á hefðbundnari mið í Ajax baðherbergishreinsi.

Það var svo á miðvikudagskvöldið þegar ég vissi að ég hefði íbúðina fyrir mig í nokkra daga að ég bretti upp ermar, dró upp gula gúmmíhanska, Ajax brúsann og skrúbbsvampa og réðst til atlögu. Ég varð strax mjög feginn að hafa ekki valið hitt eitrið því lyktin varð ótrúlega megn rétt eftir að maður hafði puðrað Ajaxinu á það sem þrífa skyldi og ég fékk ófá hnerraköstin.

Ég ætla ekki að lýsa þessum þrifum mínum í neinum smáatriðum, en þess má þó geta að flísar og pípur sem áður höfðu verið með gulleitum eða jafnvel brúnum lit urðu hvítar við smá skrúbbun og að verki loknu er ég mjög stoltur af árangrinum - þetta er allt annað baðherbergi en það var áður. Flísarnar sem áður voru mattar eru nú með votti af glampa og jafnvel vottar fyrir speglun í þeim.

Ekki ætla ég að láta eins og baðherbergið hafi verið þrifið í linnulausu dugnaðarkasti. Þvert á móti var ég mjög duglegur að taka pásur og kíkja "aðeins" á sjónvarpið og fá mér smá ferskt loft. Þetta hafðist þó með hægðinni (og tveimur bjórum) (litlum) og ég lagði lokahönd um hádegisbilið á fimmtudag eftir að hafa sofið vel og lengi.

Til að tryggja að Andreas taki nú örugglega eftir dugnaði mínum skipti ég líka um sturtuhengi, en það gamla er í töluverðri þörf fyrir að komast í bað (svo íronískt sem það kann að hljóma.

Og nei, ég tek ekki að mér þrif á heimilum...


< Fyrri færsla:
Fyrsta danska uppleggið
Næsta færsla: >
Frábær mockumentary frá meistara Jackson
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry