Maður þekkir mann og annan

Á þriðjudaginn mætti ég í formlega dótturkynningu Hönnu Birnu. Hún hafði boðið íslenskum vinkonum sínum í Köben og þótti upplagt að ég mætti líka (svona til að rjúfa félagslega einangrun mína). Það kom henni töluvert á óvart þegar hún reyndi að kynna mig fyrir viðstöddum að ég hafði hitt alla áður.

Um helming gestanna hafði ég hitt í þrítugsafmæli Hönnu Birnu í fyrra og hinum helmingnum hafði ég verið í skóla með í lengri eða styttri tíma. Þar á meðal voru lífefnafræðingarnir Solveig og Auður sem maður hitti næstum daglega í tvö ár í háskólanum.

Heimurinn er lítill, líka í Kaupmannahöfn.

Ég hafði áður ráðfært mig við sérlegan ráðgjafa minn í dætrafæðingum og -uppeldi; Halldóru mágkonu um heppilegar sængurgjafir. Við komum okkur saman um að föt kæmu sér alltaf vel og að "eitthvað rosalega bleikt" væri eflaust ágæt hugmynd. Síðastliðinn sunnudag leit ég því við á sunnudagsopnun Magasíns og keypti buxur og peysu í stærð 60 milli þess sem ég naut haustsólar og stúderaði mannlífið í miðborginni.

Fötin virtust falla í kramið hjá móðurinni og heiðursgesturinn lék við hvern sinn fingur (án þess líklega að hafa hugmynd um að þetta væru hennar fingur). Ekki annað að sjá en að þeirri stuttu gangi vel að aðlagast nýrri tilveru (og þá er ég auðvitað að tala um dótturina, Hanna Birna er ekkert svo lágvaxin :)

Nú bíður maður bara eftir að hún fari að tala svo ég geti sinnt hlutverki mínu sem íslenskuþjálfari.


< Fyrri færsla:
Smá lógópæling
Næsta færsla: >
Fyrsta danska uppleggið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry