Metviðvera á Fredagsbarnum

Ég er aðeins huxi yfir því hvort það sé eitthvað sem ég eigi að vera að stæra mig af svona opinberlega, en á föstudaginn var sett nýtt met í viðveru á Fredagsbarnum: 8 klukkustundir. Sporðrennt var 5 stórum bjórum, tveimur snöfsum, kókglasi og einni pissasneið(!). Samtals kostnaður um 1100 íslenskar krónur.

(Áður en íslenskar barflugur rjúka upp til handa og fóta og flykkjast til borgar hinna ódýru skólabara er rétt að nefna að snafsarnir og pissasneiðin var í boði einhvers sem keypti á línuna.) Bjórarnir fimm og kókið kostuðu áðurnefndar 1100 krónur.

Andreas leigusali birtist þegar leið á kvöldið. Kunningi hans er í skólanum og hann hafði áður nefnt þann möguleika að kíkja á Fredagsbar hjá okkur. Sem yfirmaður heimavarnarliðsins lýsti hann yfir sigri í geispustríðinu. Ég sýndi honum fimm mínútna túrinn um skólann og síðan skildu leiðir þegar ég rölti heim um miðnættið.

Rektor skólans birtist á barnum um tíuleytið, sötraði bjór og spjallaði við nemendur. Þegar ég fór stóð hann fyrir utan og virtist vera að bíða eftir leigubíl. Ég sé ekki rektor HÍ fyrir mér takandi þátt í félagslífi nemenda á sama hátt...

Á leiðinni heim fékk ég mér pylsu, enda hafði ég ekkert borðað síðan í hádeginu fyrir utan hálfan flögupoka (pínulitinn) og eina pissusneið. Fljótandi hitaeiningar héldu mér þó gangandi framar vonum. Heima fékk ég mér svo banana og brauðsneið fyrir háttinn.

Einhverra hluta vegna vaknaði ég eftir þriggja tíma svefn og lá glaðvakandi í klukkutíma eða svo. Blessunarlega tókst mér svo að sofna aftur og dreyma þvílíka og aðra eins vitleysu (þar sem meðal annars íbúðin stækkaði ítrekað og ég var alltaf að rekast á nýja og nýja meðleigjendur, þaðan yfir í rekstur á (mjög lágum) útsýnisturni í Bandaríkjunum og í fjölmargar aðrar áttir sem ég er búinn að gleyma).

Þegar ég vaknaði svo endanlega var ég ágætlega hress, dálítið þreyttur og ógurlega latur - en að öðru leyti hress. Aðgerðin 'málum á hvítu veggina' hófst formlega með innkaupum í Tiger og bókaverslun. Nánar um það síðar.

Laugardagskvöldi var svo varið í leti heima.


< Fyrri færsla:
Sumri hallar, hausta fer
Næsta færsla: >
Enginn póstur, engin afköst
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry