Heimurinn er lítill, líka í Køben

Um daginn átti ég hins vegar leið framhjá manni sem var að tala íslensku í farsíma og ákvað að taka hann tali við tækifæri. Mér finnst ómögulegt að vaða á fólk sem ég heyri tala íslensku, bara af því að það sé landar mínir í útlandinu (þetta er nú einu sinni Danmörk) þannig að ég ákvað að sæta seinna færis að spjalla við hann.

Þegar ég var að skoða skólann áður en ég sótti um fann ég leitarvél yfir nemendur og prófaði að leita að "sson" og "dottir". Þeim sem ég fann og virtust enn vera við nám sendi ég póst og spurði frétta. Nokkrir svöruðu og meðal annars skiptist ég á póstum við Aðalstein nokkurn (sem ég vissi ekki frekari kynni á).

Eftir að ég kom hingað hef ég nokkrum sinnum velt því fyrir mér að grafa upp þessi gömlu samskipti og senda þeim kveðju sem veittu mér upplýsingar. Einhverra hluta vegna hefur það aldrei komist í verk (enda voru þau flest að klára þegar ég var í sambandi við þau).

Í gær vildi svo til að meðan ég var að bíða eftir kebabinum mínum hjá félaga Jonatan kom inn maður sem ég kannaðist við - íslíngurinn sjálfur. Mér þótti þetta upplagt tækifæri til að taka manninn tali og skipti fljótlega yfir í íslensku.

Þá kom í ljós að þetta var (og er enn) áðurnefndur Aðalsteinn, og ekki nóg með það heldur hafði hann tæpum hálftíma áður sent mér tölvupóst!

Til að bíta höfuðið af skömminni býr hann svo í sömu götu og ég (tveimur stigagöngum frá mér) á Øresundskollegíinu. Við vorum því samferða með kebabana okkar og spjölluðum um skólann.

Fyrir tilviljun hafði Aðalsteinn komist að því í spjalli að viðmælandi hans væri í kúrsi með Íslendingi sem héti Tór-eitthvað. Hann gróf upp netfangið mitt og sendi mér póst - til þess svo að hitta mig fyrir tilviljun hálftíma síðar.

Merkilega lítill heimur...


< Fyrri færsla:
Fjölmiðlafár
Næsta færsla: >
Heim, heim, heim
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry