Back to school

Á þriðjudeginum munaði minnstu að ég svæfi hressilega yfir mig. Farsíminn sem átti að vekja mig var enn á íslenskum tíma og það var fyrir algera tilviljun að ég rumskaði og leit á klukku um það leyti sem ég ætlaði mér að vakna. Varð svo mikið um að ég lá flatur í hálftíma og mætti fyrir vikið aðeins of seint í skólann.

Æfing dagsins í tölvuleikjateoríu var venju fremur skemmtileg. Maður sá alveg sleftaumana í munnvikjum samnemendanna þegar opnaður var pappakassi með ca. 30 eintökum af Battlefield 1942 (ásamt 5 eintökum af FarCry, 5 af Doom 3 og einhverju fleiru). Skipt í tvö lið og barist um heimsyfirráð - mjög skemmtileg samvinna sem verður þegar hægt er að deila farartækjum eins og í þessum leik. Miklu meiri stemmning heldur en ef hver hleypur fyrir sig.

Ég skaust síðan frá stöku sinnum til að kíkja á hópinn minn í Interaktionsdesign sem var að leggja lokahönd á hönnunarskýrsluna okkar. Gengur vonum framar.

Forritunarfyrirlesturinn um kvöldið varð svo ansi strembinn, enda þreyta farin að segja til sín.

Í gær, miðvikudag, var svo skiladagur verkefnisins. Hópurinn minn (sem ætlaði aldrei að komast í gang) reyndist einn af fáum með allt sitt á hreinu og út um allt hús mátti sjá hina hópana sitja sveitta við að reyta hár sitt og skegg.

Kvef að hellast yfir mig og fyrir vikið eru afköst og dugnaður með allra minnsta móti.

Reyni samt að halda í horfinu.


< Fyrri færsla:
Heim og aftur heim
Næsta færsla: >
Nafn vikunnar: Lars Vegas
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry