Dagurinn sem hvarf og tíminn sem vannst

Ég álpaðist til að kaupa mér tölvuleik um daginn. Þetta er leikur sem oft hefur borið á góma í tölvuleikjateoríu og nokkrir af samnemendum mínum eru villt begejstraðir yfir, Heroes of Might and Magic III. Ég ákvað að skella mér á hann þar sem ég hef heyrt látið vel af honum, hann er af leikjatýpu sem ég hef ekki prófað (umferðabyggð strategía) (turn based strategy) og síðast en ekki síst er hann hræbillegur, enda orðinn hundgamall á tölvuleikjamælikvarða.

Í gær, laugardag, vaknaði ég um hádegið og ákvað að slaka aðeins á fram undir kaffi og tók til við að spila HMM liggjandi undir sæng.

Ég tók svo smá hlé til að klára forritunarverkefni vikunnar, sem er kommentakerfi fyrir vef - aldrei að vita nema ég skelli því (eða uppfærðri útgáfu af því) hingað inn við tækifæri. Hægt er að sjá kerfið hér. (Firefoxinn minn á í einhverjum vandræðum með header-location trixið sem er notað við að vista, gæti verið að fleiri lendi í því sama).

Þetta verkefni setti nýtt met, handin-skjalið sem ég skilaði af mér með kóda og kommentum var upp á 405 línur! Að vísu með slatta af kommentum og auðum línum upp á læsileika, en engu að síður - slatti af kóða.

Þegar lokahönd hafði verið lögð á verkefnið greip ég aftur í leikinn og spilaði fram yfir miðnættið! (Að vísu með smávægilegri kvöldmatarpásu, en hún var mjög stutt).

Það kómíska er samt að mér var ekkert að ganga vel í leiknum, ég var allan daginn á byrjunarborðinu en lenti í ógurlegu basli með að ráða niðurlögum andstæðinga minna (og þurfti nokkrum sinnum að grípa til gamallra vistana til að bjarga mér úr klúðri).

Nú man ég hvers vegna ég var hættur að spila tölvuleiki...

Til að mygla ekki gersamlega fór ég út í kvöld/næturgöngu um nágrennið að skoða mannlífið (vart sjáanlegt) og fá mér ferskt loft í hlýju haustveðrinu.

Í dag komst ég svo að því að Danmörk er komin yfir á vetrartíma (ég hélt það gerðist ekki fyrr en á morgun) - svo í dag er ég búinn að græða klukkutíma!

Í kvöld er svo stefnan að snæða kálfasteik með steiktum kartöflubátum og fersku salati. Aldrei að vita nema maður grípi í tölvuleik að því loknu...

Ekki það að ég hafi neinn tíma í svoleiðis vitleysu, verkefnamánuðurinn og ritgerðaskil nálgast óðfluga. En samt...


< Fyrri færsla:
Enn einn nágranni fundinn
Næsta færsla: >
Forvirret
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry