Mi Casa web Casa
04. nóvember 2004 | 0 aths.
Hér kemur loks myndasyrpa af Casa del Toro í breiðtjaldsformati.
Horft eftir Uplandsgade. Húsið sem ég bý í er rauðbrúna múrsteinshúsið fyrir miðri mynd. Sjálf gatan er úr hlöðnum steini sem er ósköp krúttlegt að sjá en fjandanum verra að hjóla á. Ég bendi sérstaklega á götulýsinguna sem eins og annarsstaðar í Køben hangir í strengjum milli húsanna.
Stigagangurinn minn er fyrir miðri þessari mynd. Íbúðin er á fjórðu hæð, eða þriðja sal eins og það heitir á máli bauna. En eins og Steinríkur sagði í hinu velþekkta bókmenntaverki Ástríkur á Jótlandi: "þessir Danir eru klikk".
Gangurinn býður ekki upp á sérlega góð færi til myndatöku en fyrir miðri mynd er herbergið mitt, dyrnar til vinstri liggja inn í eldhúsið, dyrnar til hægri liggja inn í stofuna og svefnherbergi Andreas er þar inn af. Inngangurinn er myndatökumanninum á hægri hönd og baðið á vinstri.
Hér sést svo dyngjan sjálf. Leðursófann á Andreas, fataskápurinn, rúmið og hægindastóllinn eru úr IKEA. Gluggarnir hafa nýlega verið gerðir tvöfaldir með aukarúðum innan við einfalt glerið. Gardýnurnar eru seldar í IKEA sem rúmteppi og reyndust ódýrari en að kaupa til þess gerðar gardýnur. (Og já, mamma, ég bý alltaf um rúmið!)
Skrifborðsstólinn tók ég með að heiman, skrifborðið er úr IKEA, sjónvarps"borðið" var til staðar í herberginu. Upphaflega prófaði ég að láta sjónvarpið standa ofan á kassanum utan af því, en ég treysti honum ekki almennilega og þessir stólar voru gripnir í staðinn. Þeir bjóða líka upp á hentugan stað til að þurrka handklæði. Sófaborðið á Andreas.
Náttborðið mitt eru kassarnir sem ég flutti að heiman og bækurnar eru flestar ennþá í bókakassanum. Skrifborðið er ekki það stærsta í heimi en virkar bæði sem vinnu- og matarborð.
Ég var búinn að vera í herberginu í viku þegar Andreas benti mér á að dyrnar sem ég hélt að lægju inn í herbergið hans eru lítill skápur. Hann nýtist glettilega vel til að hýsa allra handa varning, enda geymslupláss á baðinu með alminnsta móti (þar geymi ég bara sjampó og sápu). Strikamerkjalistaverkið er fyrsta skrefið í tilraunaverkefni um myndskreytingu veggjanna með pastelkrítum.
Fataskápurinn kostaði 125 krónur danskar. Með honum fylgdi hálfgegnsæ dula sem varla náði fullri breidd, þannig að ég rölti í álnavörubúð og keypti tvo metra af efni (og tvöfaldaði líklega með því verðgildi skápsins). Jakkakrókarnir eru græjur miklar, oddhvassir í annan endann og negldir ofan í skápinn.
Eins og sjá má er útsýnið út um gluggann minn mjög glæsilegt. G blokk Eyrnasundskollegísins í allri sinni dýrð.
Fái ég heimþrá er ruslagámurinn sem stendur utan við blokkina vandlega merktur Icelandair. (Veit ekki hvers vegna, en þetta er óneitanlega heimilislegt.)
Gasalega skemmtilegt og spennandi... Vala Matt kveður frá Køben.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry