Feðgahelgi

Pabbi og Sigmar voru hér í Køben um helgina. Sigmar er farinn aftur norður í land, en pabbi verður á námskeiði út vikuna. Heilt á litið var þetta prýðileg helgi og við náðum að gera flest það sem okkur langaði - þrátt fyrir að prógrammið væri að mestu leyti spunnið af fingrum fram.

Helgin hófst hjá mér á fredagsbar þar sem jólabjórarnir voru frumsmakkaðir og hljóðskráarsnúðar gengu gersamlega af göflunum í jólalagapyntingum. Í stuttu máli:

  • Tuborg juleøl (blár): Góður, svipaður og í fyrra (minnir mig)
  • Tuborg kalenderøl (rauður): Óvenjulegur, en ágætur í smáum skömmtum (m.a. bruggaður úr e-m berjasafa). Veit ekki hvort hann skilar sér heim á klaka
  • Carls Jul (rauður): Fínn, mjög svipaður bláa Tuborg.

Við vorum nokkur sem kíktum yfir á KUA til að skoða þeirra fredagsbarsstemmningu, hún reyndist töluvert frábrugðin okkar.

Ég fór tiltölulega snemma heim, en sat fram yfir miðnættið með Surtlu í fanginu og horfði á dapra sjónvarpsdagskrá með öðru auganu milli þess sem ég drap forynjur í HMM3.

Sigmar mætti svo eldsnemma á laugardagsmorgninum. Ég hleypti honum inn og við hrutum hvor um annan þveran, ég í rúminu og hann á sófanum til klukkan að verða ellefu. Ég hafði sofið laust um nóttina og bjórþamb og óbeinar reykingar sátu aðeins í mér, en það var varla teljandi.

Við bræður röltum fyrst og skoðuðum skólann minn. Þaðan fórum við svo með strætó á Hovedbanen þar sem við hittum pabba. Eftir nokkuð vesen tókst að koma pabba inn í tveggja manna herbergi (sem reyndist reyndar þriggja manna) og við skunduðum út í kalda Köbensólina. Við byrjuðum í Dansk Design Center, röltum þaðan um Strikið og nágrenni, étttum nýbakaðar vöfflur og skoðuðum margvíslegar búðir. Þegar verslanir lokuðu um fimmleytið ákváðum við að rölta til baka og fá okkur kvöldmat á Hereford. Nautið klikkaði ekki.

Sigmar litli var á leið í partí, þannig að við pabbi sátum í rólegheitum yfir sjónvarpi og dökku súkkulaði - vorum báðir frekar syfjaðir þannig að ég fór heim um tíuleytið.

Á sunnudag hittumst við um hádegið og fengum okkur samlokur og øl. Svarti demanturinn reyndist lokaður, en þess í stað fórum við í hafnarbúss og stigum frá borði í Christianshavn. Þar skoðuðum við síki og skútur og skutumst svo með metrónum yfir á kóngsins nýtorg og fengum okkur að borða í Nyhavn. Eftir matinn kom upp sú hugmynd að fara í bíó - en tímasetningar reyndust ekki henta sem skyldi.

Eftir millilendingu á hótelinu ákvað Sigmar að leggja sig, en við pabbi tókum lest yfir í verslunarmiðstöðina Fiskitorgið til að taka sénsinn á því að þar væri eitthvað sýnt í bíó sem okkur hentaði. Svo reyndist ekki vera þannig að við röltum til baka og enduðum á sportbar á Höfuðbananum.

Sá sportbar reyndist til mikillar fyrirmyndar og toppaði sjálfan sig með því að bjóða upp á ManUtd-ManCity í beinni. Mínum mönnum tókst ekki að láta kné fylgja bláklæddum kviði, en þetta var samt skemmtilegur leikur.

Okkur líkaði það vel við staðinn að eftir að leik lauk fórum við yfir á hótel og sóttum Sigmar til þess að borða kvöldmat á þessum sportbar og horfa á meiri bolta. Eftir matinn var kominn tími á Sigmar að taka lest á Kastrup og ég tók búss yfir á Amager.


< Fyrri færsla:
Vantar þig Íslending?
Næsta færsla: >
Mánudagur lítilla afreka
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry