Tekur sig upp gömul fíkn

Helgin já... Dugnaður með mesta móti og öllum skólaverkefnum sem á dagskrá voru lokið með glans! Eða ekki...

Á föstudag var viðvera á fredagsbarnum með allra stysta móti, enda kvöldverður með pabba á dagskránni. Þar að auki var mjög fámennt í minni kunningjakreðsu, eflaust eru annarlokin farin að stressa fólk örlítið.

Í Battle of the Grill Houses fékk Hereford ippon gegn Jensens Bøfhus. Jensen reyndist allt í lagi en ekkert umfram það.

Við feðgar kvöddumst svo á bússastoppi utan við höfuðbanann um ellefuleytið og ég sat í mínum hægindastól við tölvuleikjarannsóknir og sjónvarpsgláp nokkuð fram yfir miðnættið.

Um hádegið á laugardag ákvað ég að installa Championship Manager og sjá hvort hann væri ekki örlítið hraðvirkari á Surtlu heldur en gömlu tölvunni sem ég spilaði hann á í gamla daga. (Bara svona að prófa örstutt.) Þar tók sig upp gömul fíkn og ég leit næst upp úr leiknum þremur tímum síðar (í nóvemberlok 2000).

Eftir hressingargöngu náði ég smá dugnaðarskorpu seinnipartinn og smám saman er að komast mynd á synopsisinn minn í tölvuleikjateoríu. Um kvöldið horfði ég svo á Mystic River - fín.

Á sunnudagsmorgun greip ég í Vetrardrottninguna, rússneskættaðan reyfara sem pabbi hafði skilið eftir hjá mér. Tveimur og hálfum tíma og 180 blaðsíðum síðar leit ég upp úr bókinni (aðallega vegna hungurs) og sturtaði mig og fór út í hressingargöngu.

Seinnipartinn náði ég aftur að sýna smá tilþrif, að þessu sinni í SQL pælingum vegna lokaverkefnisins í PHP. Kláraði svo bókina fyrir svefninn.

Mótstöðuafl mitt gagnvart freistingum virðist með minnsta móti þessa dagana, en ég hef fulla trú á því að ég komist upp með það. (Enga trú á því að ég fái staðist freistingarnar, ég er ekki alveg veruleikafirrtur!)

Þess má til gamans geta að á sunnudagsmorgun ákvað ég að fara út að hlaupa í sólskininu. Ég fór yfir það í huganum hvaða undirbúnings það krefðist og hvaða leið ég ætti að hlaupa... í heilar 30 sekúndur. Þá tók ég aftur upp bókina og velti mér á hina hliðina. Kempa!

Amm, en nú verður dugnaðast. Enda kominn mánudagur og síðasta kennsluvika annarinnar gengin í garð.


< Fyrri færsla:
Vilborg eins árs
Næsta færsla: >
Merkilegt...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry