Merkilegt...

Nú sit ég allt í einu uppi verklaus á þriðjudegi (sem venjulega er stífpakkaður frá morgni til kvölds). Ekki svo að skilja að ég eigi frí í dag, heldur lauk tölvuleikjaæfingum óvenju snemma - ég er búinn að lesa tölvupóstinn minn og hef enn eina klukkustund og førre mínútur fram að PHP fyrirlestri. Þar sem ég er ekki með Surtlu blessaða með mér get ég ekki unnið í neinu beinlínis hagnýtu (nema ég tæki 15 mín. í að hjóla heim og hingað aftur - sem væri allt of gáfulegt).

Nú gæti ég:

  • Lagt drög að munnlega prófinu mínu í Tölvuleikjateoríu. Lokið var við að berja saman fyrstu útgáfu skriflega hlutans um eittleytið í nótt, en ég er bara með textann með mér á pdf formi (en ég gæti reyndar örugglega flutt hann yfir í Word...)
  • Barið saman beinagrind að pistli í Hafnarpóstinn sem ég er búinn að lofa nafna mínum Leifssyni að afhenda honum eftir helgi.
  • Snurfusað aðeins vefumsjónarkerfið mitt, t.d. þannig að ég þurfi ekki alltaf að skipta yfir í danskt lyklaborð ef ég vil vera fyndinn og skrifa Ø.
  • Pælt í því hvaða spurningar og atriði ég vil ræða við verkefnisstöllur mínar sem ég ætla að reyna að funda með á morgun. Hef að vísu ekki boðað til þess fundar enn, en kannski ég geri það snöggvast.
  • Auðveldlega sofnað, en það er því miður takmörkuð aðstaða til þess hér (enda í skólareglum að hér mega nemendur vera allan sólarhringinn, en ekki sofa).
  • Reynt að greina hvernig þessi vefdagbók sem áður var full af innblásnum greinum og skarpskyggnu athugunum á ýmsum kimum mannlífsins hefur smám saman breyst yfir í að minna á hvert annað blogg. (Rennur kalt vatn milli skinns og lyklaborðs.)

Ég bíð spenntur að sjá hvað ég geri. Nú er 1:30 í fyrirlestur og ég er litlu nær... (Er strangt til tekið 10 mínútum nær, en hver er svo sem að telja?)


< Fyrri færsla:
Tekur sig upp gömul fíkn
Næsta færsla: >
Ég er ungur enn!!!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry