Fyrirlestraannarlok

Dagbókarfærslur mínar undanfarið hafa verið óttaleg þunnyldi, enda lítið markvert skeð. Nú er hins vegar komið að ákveðnum vendipunkti, 12 vikna fyrirlestrahluta annarinnar er lokið og nú tekur fjögurra vikna verkefnatörn við. Í flestum kúrsum þarf að skila einhvers konar ritgerð eða skýrslu og það var skiladagur á föstudaginn í öllum fögum og mikið puðað á lokasprettinum.

Ég er reyndar svo heppinn að í mínum þremur fögum þurfti ég ekki að skila nema einum texta á föstudaginn. Í hinum kúrsunum er annars vegar um að ræða vikuleg forritunarverkefni og hins vegar hópverkefni sem var skilað fyrir nokkrum vikum. Aðrir eru að skila allt upp undir þremur verkefnum upp á 20-30 síður þennan sama dag og síðustu vikuna var þétt setið við allar tölvur og mér skilst að það hafi verið töluverður fjöldi sem vann í skólanum fram undir morgun aðfaranótt föstudagsins. Á föstudaginn voru svo biðraðir við alla prentara og verið að gera lokalagfæringar í öllum hornum fram á síðustu stundu.

Prófafyrirkomulagið hér er töluvert öðruvísi en maður á að venjast að heiman. Hér eru munnleg próf normið og eina skriflega prófið sem ég kem til með að taka á önninni er í forritunarkúrsinum. (Það verður í fyrsta sinn sem ég handskrifa forritunarkóða með blýanti.) Normið virðist annars vera það að við skilum af okkur skriflegu plaggi (synopsis) um hópverkefnin eða viðfangsefni að eigin vali. Þessi plögg sem slík fá ekki einkunn, en hún er gefin fyrir munnlega kynningu á verkefnunum þar sem við eigum að tengja okkar kynningar við þá fræðitexta sem við höfum lesið.

Prófundirbúningurinn kemur því aðallega til með að felast í því að undirbúa þessa munnlegu framsetningu, frekar en að reyna að troða öllum textum og glósum í kollinn á sér. Við eigum samt að geta svarað spurningum úr öllu efninu, en það liggur í loftinu að ef kynningin okkar er fókuseruð og með góðum tengingum við fræðin snúast spurningarnar aðallega um smáatriði í þeim textum sem við höfum valið.

Sem dæmi er synopsisinn minn í tölvuleikjateoríu mjög stuttur (tvær síður og forsíða) og okkur er uppálagt að hugsa hann sem eins konar tíser, þ.e. við eigum að geyma lokahnykkinn fyrir sjálft prófið, synopsisinn er aðallega ætlaður til þess að prófdómararnir geti sett sig inn í viðfangsefnið fyrirfram. Við höfum einnig þann möguleika að koma með tillögur að spurningum sem hægt er að ræða nánar í prófinu og þannig stýrt að einhverju leyti hvaða stefnu umræðurnar taka.

Eins og ég hef eflaust nefnt áður í dagbókinni tók ég fyrir tvo tölvuleiki sem hafa haft þau áhrif á mig að halda mér gagnteknum í allt of marga klukkutíma og reyni að greina hvað þeir eiga sameiginlegt. Leikirnir eru Heroes of Might and Magic annars vegar og Championship Manager hins vegar. Plaggið er hér á PDF formi (á ensku) fyrir þá sem áhuga hafa: The dangling carrots of Might and Management.

Gestafyrirlestur föstudagsins var prófessor frá Árhúsum sem sagði frá vangaveltum spekinga um það hver verða hin stóru viðfangsefni upplýsingatækninnar (Grand Challenges) næstu fimmtán árin eða svo. Margt áhugavert í því.

Föstudagsbarinn var svo með allra skemmtilegasta móti. Mætingin var mjög góð, enda margir að slaka aðeins á eftir törn undanfarinna daga. Reyndar var ekki laust við að augnlok sumra færu að síga eftir einn til tvo bjóra og það þynntist aðeins í hópnum, en þegar ég fór heim fljótlega eftir miðnættið var enn drjúgur fjöldi og prýðileg stemmning.

Ég spilaði meðal annars borðtennis í fyrsta skipti í 15 ár eða svo (reyndar vorum við ekkert að stressa okkur á smáatriðum í reglunum eða telja stigin, en það var ekki minna gaman fyrir það). Einnig brá ég mér í hlutverk sjúkraþjálfara og gógópíu í borðfótbolta, og stóð mig betur í þeim hlutverkum heldur en sem stjórnandi í fótboltanum, þar sem ég tapaði með glæsibrag skömmu síðar. Þess utan einbeitti ég mér að því að verða mér, landi og þjóð til hæfilegrar skammar.

Það var allt að því heimilislegt að rölta heim um nóttina með viðkomu í pylsuvagni, enda féllu fyrstu snjókornin í Köben fyrr um daginn og það var örlítið föl á götum og gangstéttum.

Á laugardagsmorgun var ég svo alveg laus við það að vera hress þegar ég vaknaði. Aukalúr og mikið af lélegu sjónvarpsefni hressti mig hins vegar við þegar leið á daginn.

Vanlíðanin var grunsamlega mikil miðað við áfengismagnið sem ég hafði innbyrt, en ég hugsaði með mér að kannski væri jólabjórinn svona lúmskt áfengur. Þegar líðanin var svo svipuð á sunnudagsmorgun (algerlega án jólabjórs) lá ljóst fyrir að ég væri lasinn.

Það er ég reyndar enn þegar þetta er skrifað á mánudegi, en parasetamól og parkódín halda mér þokkalega gangandi.


< Fyrri færsla:
Stundum gleymi ég...
Næsta færsla: >
Danir... selja ekki parkódín í apótekum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry