Danir... selja ekki parkódín í apótekum

Ég veit ekki hvað veslings afgreiðslustúlkan sem í gær afgreiddi mig í apóteki á Amagerbrogade hélt um mig. Ég bað í sakleysi mínu um parasetamól og parkódín, enda undir það búinn að þurfa kannski að kljást við magaeymsli næstu dagana. Parasetamólið fékk ég án vandræða en málin flæktust heldur þegar kom að parkódíninu.

Hún hváði, ég endurtók mig með mínum besta danska hreim. Hún hváði aftur.

Ég reyndi að skipta yfir í ísl-ensku með áherslu á hvern einasta bókstaf. Hún spurði mig hvaðan ég hefði þetta nafn. Ég svaraði því til að þetta væri ég vanur að kaupa á Íslandi. Hún sagði mér að í Danmörku væri kódein ekki afhent án lyfseðils (hér fékk ég augnaráðið með þögli spurn um það hvort ég væri dópisti eða bara klikkaður útlendingur).

Við björguðum okkur út úr pínlegri aðstöðu með því að sannmælast um að kódimagnýl (sem hún þó átti til) væri ekki það sem ég væri að leita að og ég yfirgaf svæðið með mínar halftreds Panódíl.

Hræddur er ég um að Lovísa læknir myndi fussa yfir svona parkódínhallæri, en það er önnur saga.

Blessunarlega eru magakvalir næstum alveg fyrir bí og ég get fúnkerað normalt í mínu bjórlegna hópverkefni. Þar var í gær ákveðið að brugga 6-7% sports bjór - þ.e. með guaranabaunum upp á kikkið. Fróðlegt.

Skemmtilegar klemmur sem töflufíkn mín kemur mér í hvað eftir annað. (Með töflufíkn er hér átt við ásókn uppgjafakennarans í að tjá sig á tússtöflur hvar sem færi gefst, ekki innbyrðingu.) Ég stend sjálfan mig að því trekk í trekk að standa fyrir framan tússtöflu og reyna að stjórna umræðum og glósa á dönsku. Ekki það auðveldasta í heimi.

Ég held reyndar að allir fyrrum vinnufélagar mínir eigi auðvelt með að sjá mig fyrir sér þusandi framan við tússtöflu að þykjast vera alvitur, á dönsku.


< Fyrri færsla:
Fyrirlestraannarlok
Næsta færsla: >
Athugasemdakerfi til prófana
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry