Vinur minn með orma...
06. desember 2004 | 0 aths.
Undanfarna daga hafa ýmsir gagnmerkir aðilar keppst við að senda mér lykilorð, staðfestingar og upphrópanir í pósti. Allt með viðhangandi illilegum viðhengjum. Dreg ég af þessu þá ályktun að einhver af vinum mínum sé með ormasmit.
Nánar tiltekið er viðkomandi sýktur af Sober.F ormi. Ég hef sterkan grun um að þetta sé einhver sem ég þekki, því thorarinn hjá thorarinn.com hefur verið næstum alveg laus við ruslpóst, sem bendir til þess að mér hafi tekist að halda netfanginu frá því að birtast á vefnum, sem aftur bendir til þess að ormurinn sem er að senda póst á netfangið mitt hafi fundið það í póstforriti smitaðrar tölvu.
Viðkomandi hefur þá verið í einhverjum tölvupóstsamskiptum við mig, eða fengið hóppóst sem líka hefur verið stílaður á mig. Eitthvað hef ég notað netfangið í að senda út fyrirspurnir um hitt og þetta til fyrirtækja og stofnana, en langmest traffík er til vina og kunningja og því grunar mig að þetta sé einhver sem ég þekki.
Er einhver þarna úti sem ekki er með virka vírusvörn sem sækir reglulega uppfærslur? Ef svo er, þá er t.d. AVG Antivirus ókeypis, og að mér skilst ágætlega liðið.
Uppfært: Ég gleymdi að nefna að eftir að þessi ormahríð hófst hef ég fengið nokkra phishing pósta (tölvuþrjótar sem þykjast vera banki að biðja um lykilorð). Ég hef grun um að þar liggi ormurinn að baki með einhverjum hætti.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry