Dvalaeðli?

Með hverjum degi sem líður styrkist ég meir og meir í þeirri trú að mér sé að einhverju leyti eðlislægt að leggjast í dvala yfir háveturinn. Það er reyndar ekki svo að ég safni fituvef og finni hjá mér óviðráðanlega tilhneigingu til "hreiðurgerðar", en ég þykist samt greina skýr merki um dvalatilhneigingu.

Í gegnum tíðina hefur þessi dvalaþörf toppað um jól þegar sólarhringnum er snúið á hvolf og varla gægst undan sæng nema rétt til að setjast að snæðingi. Ég er ekki alveg kominn á það stig ennþá, en mikið er samt erfitt að komast undan sænginni ef það er ekkert sem beinlínis hindrar að maður komist upp með að kúra örlítið lengur.

Það er ekki rétt að kalla þetta skammdegisþunglyndi eða -depurð því ég er prýðilega hress og laus við svartsýni. En reyndar er drift og frumkvæði með minnsta móti þessa dagana (og það er eitthvað sem ég tengi mjög við þennan árstíma).

Hér í Danaveldi er auðvitað heldur bjartara en á klakanum, en það er samt ekki allur munur á. Það er þokkalega bjart á morgnana (þá loksins maður fer frammúr) og svo situr maður inni í gerfiljósi allan daginn og fer svo heim í kolniðamyrkri eftir klukkan fimm.

(Veðrið er samt áberandi öðruvísi, í dag var 9 stiga hiti, þurrt og hæglætisgola þegar ég hjólaði heim í myrkrinu.)

Nú veit ég ekki hvort Darwinistar fallist á það að þessi dvalatilhneiging komi frá forfeðrum mínum í dýraríkinu. Hins vegar velti ég vöngum yfir því hvernig tilvera forfeðra minna á nýliðnum öldum hafi verið í skammdeginu. Ljós var auðvitað af skornum skammti í torfbæjunum, upphitun takmörkuð og fæðumagn sömuleiðis. Þegar búið var að sinna skepnunum hefur lítið annað verið að gera en kúldrast í baðstofunni og sinna handverki eða lestri, ætli menn hafi ekki varið stærri hluta sólarhringsins í fletinu en utan þess?

Kannski þessir gömlu tímar skjóti upp kollinum í skrokknum á mér? Hver veit?

Ekki svo að skilja að þetta sé til teljandi vandræða, ég hef alveg komist upp með þessar dvalatilhneigingar undanfarið og mun gera það áfram.

Ég ætla að gera tilvitnun í Wally, vinnufélaga Dilberts, að lokaorðum þessa pistils: "You can take my soul but not my lack of enthusiasm".


< Fyrri færsla:
Vinur minn með orma...
Næsta færsla: >
Smellið hér: Þágufallssýki vefsins?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry