Smellið hér: Þágufallssýki vefsins?

Það er merkilegur andskoti hvað (að öðru leyti) sæmilega greint fólk getur þrjóskast við að nota textann "smellið hér" fyrir alla veftengla, oft þannig að bara "hér" er virkt. Til að bíta höfuðið af skömminni finnst sumum líka töff að hafa tengla eins ósýnilega og hægt er.

Ef eitthvað er er þessi smellið-hér-sýki að breiðast út, þrátt fyrir að allir sem vit hafa á geti bent á hversu rangt þetta er. Það má næstum segja að þetta sé útgáfa vefsins af þágufallssýkinni.

Nýjasta hneykslunarefnið í þessu er stærsti vefur landsins, mbl.is.

Í dag slysaðist ég inn á jólakortavef mbl.is og þar er meðal annars að finna þetta síðubrot þar sem hin raunverulega virkni síðunnar tekur við af auglýsingaefni og sjálfshóli:

Smelltu hér sýki mbl.is

Hér eru hvorki fleiri né færri en fjórir tenglar, hver öðrum ósýnilegri.

Nú er ég að eigin áliti nokkuð sleipur vefnotandi og hef (með gleraugum) þokkalega sjón, en ég þurfti virkilega að hafa fyrir því að finna þá með því að færa músina yfir textann þar sem mig grunaði að hlytu að vera tenglar.

Snillingarnir á mbl.is virðast hafa lagt sig fram um að hanna þraut frekar en vefsíðu sem reynir að auðvelda notendum sínum að ljúka sínum verkefnum.

Í fyrsta lagi hefur eitthvað hönnunarskoffín ákveðið að það sé töff að hafa tenglana ósýnilega og sleppa undirstrikuninni. Það væri svo sem gott og blessað ef þeir væru í staðinn feitletraðir og/eða í skýrt afmörkuðum lit, en nei, svarblár texti skal það vera.

(Nú getur verið að þessi hönnuður sé hin vænsta sál, en grafíkerum sem finnst svalt að hafa tengla ósýnilega eiga að brjóta um bónusbæklinga, ekki hanna vefsíður.)

Nota bene: Markhópur þessa jólakortavefs eru ekki bæklingahönnuðir sem fótósjoppa sín eigin jólakort, heldur miklu frekar afar, ömmur og barnabörn þeirra.

Smelltu hér sýki mbl.is

Hér er ég búinn að lita tenglana. Það fyrsta sem maður tekur eftir er að ef maður hefur gleymt lykilorðinu fær maður þrefalt stærra svæði til að smella á heldur en ef maður ætlar að skrá sig eða lesa kortin sín. Trúlega hefur það verið mistök, en er þó til greinilegra bóta.

Hvað mbl.is hefur á móti útlendingum veit ég ekki, en einhver hefur haft fyrir því að minnka "here" alveg sérstaklega.

Aðal vandamálið við smelltu-hér-sýkina í þessari mynd er hversu lítið virka svæði hvers tengils er. Mjög gróflega skotið er hvert "hér" um þriðjungur úr fersentrimetra, sem er ekki stór flötur - hvað þá fyrir þá sem eru óvanir músinni.

Fljótlegasta reddingin væri að gera stærri hluta af setningunum virkar án þess að umorða þær:

Smelltu hér sýki mbl.is

Það er líka alger óþarfi að spandera tveimur setningum á gleymt lykilorð, hafi notandinn gleymt því er það textinn "Gleymt lykilorð?" sem hefur merkingu, ekki "Smelltu hér". "Smelltu hér ef þú hefur gleymt lykilorðinu" kæmi líka til greina.

Galdurinn við góða tengla er einfaldur: Í fyrsta lagi þurfa þeir að vera sýnilegir, í öðru lagi reynir maður að hafa virka hluta textans sjálfskýrandi.

Til dæmis stendur hér fyrir ofan:

Í dag slysaðist ég inn á jólakortavef mbl.is...

ekki

Í dag slysaðist ég inn á jólakortavef mbl.is, en hann getur þú opnað með því að smella hér...

Best væri auðvitað að reyna að umskrifa textann á þessari mbl.is síðu með þetta í huga, en algert lágmark að útvíkka tenglana (og hætta að fela þá).

Lýkur hér tuði kvöldins.


< Fyrri færsla:
Dvalaeðli?
Næsta færsla: >
Tenglasúpa
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry