Jólasnigl og málafærnihnekkir

Ég skaust í miðbæinn fyrir hádegið og kíkti aðeins í búðir. Keypti m.a. eina jólagjöf og buxur fyrir pabba gamla, auk þess að gjóa augum að huxanlegum jólaskyrtukandídötum. Í H&M keypti ég mér húfu, enda hefur mér einhvern vegin tekist að glutra gömlu húfunni minni úr augsýn.

Þessi húfukaup væru ekki í frásögur færandi fyrir utan það að ég heyrði ekki almennilega hvað afgreiðslustúlkan sagði eftir að greiðsla hafi farið fram og hváði því. Hún skipti snarlega yfir í ensku til að spyrja hvort ég vildi fá poka eða ætlaði að skella húfunni á kollinn.

Ég held svei mér þá að þetta sé í fyrsta sinn sem afgreiðslufólk í verslun skiptir yfir í ensku í viðskiptum við mig það sem af er vetri. Ég lét mér hvergi bregða heldur svaraði henni aftur á dönsku. Hún þrjóskaðist samt við að tala sjálf ensku þar til ég yfirgaf verslunina með húfuna í poka.

Íslendingarnir í jólaverslunarferð í Köben virðast almennt fara heldur seint á fætur, ég heyrði ekki í fyrstu Íslíngunum á Strikinu fyrr en rétt fyrir hádegið.

Um kaffileytið fékk ég svo prýðilegar íslenskar pönnsur hjá nágranna mínum, Aðalsteini. Ljúffengt.

Þaðan lá leiðin (með stuttri viðkomu í heimahöfn) í myndatöku fyrir Flash hópinn í bjórverkefninu. Ég var þar í hlutverki bargests sem drakk öl og dansaði á barborðinu. Nokkuð skondið. Fríi bjórinn fínn.

Þær spurnir hafa borist frá bruggmeistara vorum að eftir að hafa smakkað mjöðinn í núverandi mynd er hann viss um að við séum með hittara í höndum.

Hef annars verið duglegur við allt annað en textaskrif fyrir verkefnið okkar - sem átti að vera viðfangsefni dagsins. Oh, well...


< Fyrri færsla:
Tenglasúpa
Næsta færsla: >
Danskur kansellístíll lifir enn góðu lífi.
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry