Langur verkefnadagur að baki

Í dag var ég að brasa í verkefninu í skólanum frá hálftíu til hálfátta. Meðal verkefna var að tappa brugginu okkar á flöskur, rétt tæplega 10 kassar.

Þegar ég kom heim um áttaleytið var ég þokkalega punkteraður og hlammaði mér með kvöldmatinn fyrir framan "The man who wasn't there".

Núna um miðnættið er ég að ranka við mér aftur og komast í gír, en ætla að reyna að sýna skynsemi og fara ekki of seint að sofa.

Í fyrramálið er málið að klára enska textann fyrir vefinn okkar (sem ég ætlaði að klára núna í kvöld), skrifa draft að nokkrum minni köflum í skýrsluna okkar og þvo þvott. Bergmálið í tómri nærfataskúffunni er farið að trufla nágrannana...

Annars hittum við leiðbeinandann okkar í morgun og hann var þokkalega sáttur við það sem okkur hafði þó tekist að senda honum á sunnudagskvöldið. Honum fannst vanta rauða þráðinn í textana, þeir væru frekar sundurlausir (sem ég get alveg tekið undir).

Við stefnum enn að því að klára allt á fimmtudagskvöldið og geta slakað á á föstudag. (Skilafrestur er til kl. 3 á föstudag).

En nú er það spurning um sjálfsagann, smá púrtara og svo í bólið.


< Fyrri færsla:
Sunnudagspiparsteikin
Næsta færsla: >
Ráðgátan um bjórinn skýrð (að hluta)
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry