Allt í góðum gír

Fundurinn með kennaranum okkar í hádeginu reyndist mjög góður. Hann var á því að plaggið hefði batnað mikið frá fyrstu útgáfu (nýtt trix í bókina; passa að fyrsta eintak sé nægilega lélegt til að kennarinn geti séð greinilegar framfarir eftir að hann kemur með sínar fyrstu athugasemdir).

Nú er klukkan rúmlega 5. Við erum að skrifa okkar Konklusion og búin að stroka út öll önnur verkefni af tússtöflunni. Eftir að hafa þeyst eins og röndóttur tittlingur um allan skóla í leit að starfhæfum litaprentara, þegar nágranni okkar lagði upp laupana, komst ég að því að tíminn hafði læknað öll hans sár (nú eða tölvudeildin sem virðist á extra útkallsvakt). Sex litprentuð eintök af forsíðunni eru því til taks.

Það er rafmögnuð stemmning í húsinu. Í öllum hornum sitja menn og stara á svartan texta á hvítum grunni, ýmist á skjá eða pappír. Fyrir skömmu kom tilkynning um að Fredagsbarinn hefði verið opnaður, og að stefnt sé að því að hann verði opinn linnulaust fram á aðra nótt.

Þeir sem lenda í basli með verkefnið sitt geta því dottið í það og reynt að drekkja áhyggjum sínum.

Skrifanlegir geisladiskar eru uppseldir í bókabúð skólans, þannig að ég varð að láta mér nægja að kaupa diskahulstur og stefni að því að brenna diskana heima í kvöld.

Við komumst sem sé að því á fundinum með kennaranum að það er ekki nóg að skila bara inn link á vefsvæðið, heldur þurfum við helst að skila líka afriti á diski til að það sé tryggt í hvaða formi vefurinn var við skil. Ég er því búinn að dunda mér við að búa til statíska útgáfu af demóvefnum okkar. Þar kom að góðum notum að hafa lært "regular expressions", því þannig gat ég látið TextPad uppfæra alla tengla til samræmis við nýjar slóðir.

Spennan magnast, en ég er bjartsýnn á að við náum að prenta út lokaútgáfurnar áður en við hættum í kvöld. Skil verða aldrei fyrr en á morgun þar sem skrifstofan er lokuð.

Það er ekki bara í húsinu almennt sem stemmningin er rafmögnuð. Einhverra hluta vegna fæ ég hörku stuð frá stólnum sem ég sit í í hvert sinn sem ég stend upp. Ég er farinn að gera það næstum ósjálfrátt að reka buxnaklætt lærið í stólarminn þegar ég stend upp, til þess að jarðtengja á sem sársaukaminnstan hátt.


< Fyrri færsla:
Allt á fullu
Næsta færsla: >
Í prentaranum, dúa...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry