Danir... eiga hunda sem skíta

Síðasti hluti fyrirsagnarinnar er kannski óþarfur, enda skilst mér á líffræðingum vinum mínum að flestir ef ekki allir hundar skíti, alls óháð þjóðerni eigenda. Hins vegar er það einmitt það atferli (skítferli?) þeirra sem fer í mínar fínustu.

Mjög gróflega sýnist mér mega skipta hundeigendum í Köben í þrjá hópa og hver hópur virðist eiga sér klassískar hundategundir. Fyrst eru gamalmenni og öryrkjar sem virðast einkum halda hunda sem félagsskap. Þeirra hundar eru yfirleitt af þeirri stærðargráðu að geta hæglega rúmast í skókassa. Svo eru það heimilisleysingjar, en lygilega margir heimilislausir eiga sér ferfættan áhanganda. Stærð og útlit hundanna er breytilegt en þeir eiga það þó yfirleitt sammerkt með "eigandanum" að vera hálf druslulegir. Loks er það fámennur hópur sterabolta með samanskroppin eistu sem virðast gangast upp í því að eiga sem stærstan og illilegastan hund. Helst án ólar.

(Tekið skal fram að fullyrðingin um eistnaástand steraboltanna er byggð á vísindalegum rannsóknum Péturs Péturssonar læknis, ekki persónulegum kynnum.)

Allir þessir hundar þurfa svo fyrr eða að skíta og virðast fíla það að skíta á gangstéttar. Í miðbænum og stærri götum er þetta reyndar ekki teljandi vandamál - líklega vegna þess að götur og stéttir eru reglulega sópaðar. Í íbúðargötum eins og minni þarf hins vegar á köflum að beita lagni til að forðast ófögnuðinn.

Danskir hundar virðast líka torlæsir því við enda götunnar minnar er lítill reitur, merktur Hundaklósett, en ég hef enn ekki séð neinn ferfætling nýta sér þá aðstöðu.


< Fyrri færsla:
Projektet afleveret!
Næsta færsla: >
Postmortem verkefnaskila
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry