Postmortem verkefnaskila

Ég veit ekki betur en öllum sem ég þekki hafi tekist að skila sínum verkefnum á fyrirhuguðum tíma. Sumir voru reyndar frekar tæpir á því, en slapp þó til. Það hefur verið vandlega brýnt fyrir okkur að við verkefnaskil gildi einungis klukkan á skrifstofunni, þegar hún er orðin eina sekúndu yfir skilafrest er sjoppunni lokað. Ekkert tillit er tekið til þeirra náttúruhamfara sem kunna að hafa vafist fyrir samviskusömum nemendum á lokasprettinum (þar með talið bilun í prentarakerfinu).

Ég dáðist að úthaldi sumra sem sátu á Fredagsbarnum sötrandi bjór fram eftir síðdegi þrátt fyrir að hafa ekkert sofið nóttina áður, og í einstaka tilfellum ekki hafa borðað neitt bitastætt í hátt í sólarhring. Sjálfur var ég farinn að geispa um kvöldmatarleytið.

Stemmningin var góð en róleg og ég fór heim á siðsömum tíma, greip með mér kvöldmat hjá Jónatan vini mínum og lét svo renna af mér yfir Eilífu sólskini hins blettalausa hux. Prýðisskemmtun.

Við stálumst til að smakka aðeins á Vores Øl og niðurstöður þeirrar smökkunar voru mjög jákvæðar. Það reyndist komið smá gos í bjórinn þrátt fyrir að eftirgerjunin hafi ekki haft marga daga. Liturinn er tilkomumikill, dimmbrúnn með smá rauðum undirtón. Bragðið er... öðruvísi, en alls ekki slæmt. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því, hann er svolítið rammur en ekkert á við "alvöru" dökkbjóra, svolítill karamellukeimur og órætt ávaxtabragð (líklega af guarananu).

Bruggmeistari Kjeld segir að bjórinn muni toppa um eða eftir áramótin og ég hef einmitt tekið fjóra mér til handargagns. Þeir munu bíða vandlega innvafðir í plast (ef eftirgerjunin skyldi reynast of kröftug) eftir að vera drukknir á nýju ári. Þótt það væri skemmtilegt að skála í þeim um áramótin legg ég ekki í að útskýra fyrir tollinum hvað ég sé að gera með ómerktar bjórflöskur í farangrinum...

Við fengum svo loks að sjá vefinn þegar við vorum búin að skila. Ég fæ alveg vatni haldið yfir útliti og tæknilegri útfærslu... A.m.k. hefði ég gert þetta öðruvísi. Ég fatta til dæmis ekki af hverju vefurinn er allur settur í frameset. Kannski til að fela index.php?id=nn slóðirnar?

Hins vegar mæli ég með tónlistarhorninu okkar, þar eru skemmtilegir talentar á ferð og ég hlakka til að spreyta mig á því að búa til tónlist úr þeirra hráefni í janúar (í próflestrarpásunum). Endanlega bakgrunnstónlistin er reyndar ekki þeirra allra besta tónsmíð, en skemmtilega sýrð.


< Fyrri færsla:
Danir... eiga hunda sem skíta
Næsta færsla: >
Uppfærður moggi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry