Lokasprettur jóla

Í gær skaust ég í mína lókal verslunarmiðstöð og náði þar að klára jólagjafainnkaup. Seinnipartinn hitti ég svo Sigmar litla á Höfuðbanagarðinum og við hlupum við fót eftir Strikinu í jólaslyddu. Reyndar í erindisleysu þar sem það sem drengurinn ætlaði að kaupa fannst ekki í H&M. Hins vegar fannst (venju samkvæmt) slatti af Íslingum í jólainnkaupum og meira að segja nokkrir sem við bræður þekktum (þrátt fyrir dapurt skyggni).

Um kvöldið leit ég svo við hjá Hönnu Birnu, Jesper og Sif. Öll reyndust þau í góðum gír.

Nú sit ég og horfi á sólina lækka á lofti fyrir utan gluggann og velti vöngum yfir því hvað það væri nú miklu gáfulegra að skjótast út og viðra sig aðeins í staðinn fyrir að hanga hér yfir þessu pikki.

Búinn að pakka niður í öllum aðalatriðum, en á eftir að taka aðeins til í herberginu þannig að það verði heimilislegra þegar ég sný aftur. Ég þyrfti líka að nota mér það að vera á öflugri nettengingu til að græja glósur fyrir forritunarprófið.

Ég neyðist sem sé til að nota hluta frísins í að undirbúa prófin, en ég held að það verði þó ekki til að spilla jólastemmaranum (eins og Margrét systir myndi orða það). (Í minni orðabók minnir stemmari meira á hægðatregðu, en það er kannski ekki neitt sem maður á að ræða á opinberum vettvangi.) (Sérstaklega ekki eftir að hafa skrifað langa færslu um hundaskít.)

Semst, stefnt að því að rölta út í rökkrið rúmlega sex í kvöld til móts við búss. Lending áætluð í Keflavík rúmlega 22 (ef mér skjöplast ekki).

Nú er það sturta, rakstur og viðrun (ekki endilega í þessari röð) og svo kíki ég á glósurnar.

Ritstjórn thorarinn.com óskar lesendum nær og fjær, til sjávar og sveita, notalegra jóladaga.


< Fyrri færsla:
Uppfærður moggi
Næsta færsla: >
Ársþriðjungsyfirlit
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry