Fyrsta próf overstået

Í morgun fór ég í mitt fyrsta alvöru próf í rúm 7 ár ef mér misreiknast ekki. Það reyndist mun lengra en ég hafði átt von á, en með því að skrifa á fullu allan tímann og mæta nokkuð vel undirbúinn náði ég að svara öllu og m.a.s. koma auga á eina smá villu í yfirlestri. Held að ég muni fá fína einkunn.

Eftir prófið vorum við svo nokkur sem brugðum okkur yfir í Christianshavn og borðuðum samlokur og salat á litlu kaffihúsi þar. Síðan var ómögulegt að svíkjast um á Fredagsbarnum, þannig að við ákváðum að hittast þar aftur. Ég kom við heima og skilaði af mér hjóli og tösku og rölti svo í skólann til að fá mér einn eða tvo. Það var um klukkan hálffjögur.

Viljastyrkur minn reyndist ekki meiri en svo að ég kom heim um ellefuleytið. Reyndar var innbyrt áfengismagn ekki til teljandi vansa, en ég lenti í mörgum skemmtilegum spjöllum og nennti ekki að fara heim til að slæpast þar yfir sjónvarpi eða annarri lágkúru.

Þótt það sé langt síðan ég var síðast í próftörn er ég strax farinn að greina gamalkunnug mynstur; eftir að hafa gengið vel í fyrsta prófinu er erfitt að mótivera sig til að lesa fyrir það næsta, manni finnst maður eiga skilið að umbuna sjálfum sér á einhvern hátt svo úr verður leti.

Héðan af heimilinu er það helst títt að Andreas lénsherra fer á morgun til Taílands og verður þar í mánuð. Það verður eflaust svolítið spes að vera einn í íbúðinni allan þann tíma...

Sem minnir mig á það að hugmynd að "nýjum" einþáttungi er farin að gerjast í kollinum á mér. Ég er kominn með persónur, aðstæður og óvænta twisti en vantar allt kjöt á beinin. Hins vegar liggja lokaorð verksins fyrir, en þau verða "Soldið spes..."

Jamms.


< Fyrri færsla:
Vor í lopti
Næsta færsla: >
Stormfælan ég...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry