Aftur brostið á með logni

Ég fór út í göngutúr fljótlega eftir hádegið í gær og rölti í klukkutíma um Amager. Ég reyndi að hafa auga með stormskemmdum, en það var sannast sagna ekki mikið að sjá hér í kringum mig.

Við blokk hér rétt hjá mér höfðu reyndar nokkrar stæður af stálrömmum sem verið er að nota við að endurbyggja svalirnar fokið um koll og lagst yfir runna og girðingar.

Úr sér vaxinn runni þar rétt hjá var venju fremur flæktur um sjálfan sig, en annars sá maður ekki önnur merki um storminn en plast- og pappírsrusl í öllum runnum (sem eflaust hefur að hluta verið þar fyrir blásturinn) og hjól sem höfðu fokið um koll. Við Østrigsgade voru steinbrot á gangstéttinni sem gætu hafa verið þaksteinn, en ég þori ekki að fullyrða um það.

Myndirnar í sjónvarpinu hafa hins vegar sýnt ansi hressilegar afleiðingar vítt um landið; fokin þök, hálf-horfnar glerbyggingar og afleiðingarnar af því þegar sjávarmál stendur rúmlega 2,2 metrum hærra en venjulega.

Nú um kvöldmatarleytið er komið blankalogn og hitinn um 5 gráður.


< Fyrri færsla:
Þegar nördar mótmæla
Næsta færsla: >
Skriflegur undirbúningur fyrir munnlegt próf
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry