Skriflegur undirbúningur fyrir munnlegt próf

Ég er að reyna að koma mér í þann gír að hugsa ekki um prófið á þriðjudag sem munnlegt próf, heldur sem fyrirlestur sem ég þarf að undirbúa. Aðalmunurinn felst í því að ég þarf ekki að geta staðið skil á öllu efninu, heldur get að stærstum hluta stýrt því sem fram fer.

Ég er reyndar búinn að lesa yfir allt efnið, sem er auðvitað alltaf kostur - sér í lagi til að ákveða hvaða tökum ég ætla að taka viðfangsefnið. Nú er ég hins vegar búinn að setja niður þá punkta sem ég ætla að hafa með mér sem "slædssjó", næsta skref verður að prófa að fara með fyrirlesturinn nokkrum sinnum og í framhaldi af því að skrifa niður handritið mitt.

Vandamálið verður að takmarka sig við efni sem ég kemst yfir á kortéri. Ég er kominn í 11 glærur, auk þess að ætla að kynna A3 póster með hugmyndinni okkar. Sannast sagna þori ég varla að tímamæla mig - ég er hræddur um að ég sé þegar kominn með allt of langan fyrirlestur...

En ég hef morgundaginn til að fínpússa kynninguna, prenta út gögnin sem ég ætla að taka með mér og reyna að undirbúa mig fyrir mögulegar spurningar.


< Fyrri færsla:
Aftur brostið á með logni
Næsta færsla: >
Fyrsta einkunn í húsi: 10!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry