Patent pending

"Í brjálæðishrifningu býð ég þér tópas og berjasaft skilyrðislaust..." sungu Stuðmenn um árið. Í brjálæðisdugnaðarkasti eftir prófið þvoði ég heilan helling af þvotti og tók svo til á skrifborðinu mínu! Í þeirri tiltekt voru gerðar uppgötvanir sem eflaust munu breyta framtíð mannkyns.

Trúlega fá allir Íslíngar, hvar sem þeir eru í sveit settir, dagatal frá bankanum sínum um áramótin. Þessi dagatöl eru til margra hluta nytsamleg, en ef maður er ekki með sérlega stórt skrifborð eru þau heldur plássfrek í standandi stöðu. Fletji maður þau út er hins vegar hætt við að þau séu týnd þegar maður þarf á þeim að halda.

En við sem fáum 10 í Interaktionsdesign kunnum að hugsa út fyrir rammann og sjá þrívídd skrifborðsins. Og sjá ég boða yður mikinn fögnuð, ég boða lampadagatalið:

Lampadagatalið, patent pending

Lampadagatalið ™

Jafnvel þótt það kunni að virðast flókið er lampadagatalið í raun mjög einfalt í smíðum. Allt sem til þarf er skrifborðslampi og dagatal frá banka. Með því að slíta lampann af undirstöðum sínum má með lagni þræða dagatal upp á arminn. Mælt er með því að lampinn sé tekinn úr sambandi meðan á þessu stendur, ekki endilega af öryggisástæðum heldur til að einfalda verkið verulega. Einnig er vakin athygli á því að hægt er að þræða dagatalið á tvo vegu og sé það þrætt á rangan hátt sést aðeins skreytimyndin á bakhlið þess. Sé þrætt rangt skal ekki örvænta heldur reyna aftur.

(Þeim notendum sem tekst að þræða dagatalið rangt í þremur tilraunum í röð er vinsamlega bent á að snúa sér að öðrum og minna krefjandi verkefnum.)

Einnig er vakin athygli á Post-it glósumerkjurum sem smeygt hefur verið undir armgorm lampans. Þetta fyrirkomulag er nú til rannsókna og enn hefur ekki verið sótt um einkaleyfi á því, þótt fyrirliggjandi niðurstöður lofi góðu.

Þótt það sjáist ekki á ljósmyndinni er annar samsvarandi glósumerkjari (gulur) þræddur upp á sama armgorm. Þannig opnast möguleiki fyrir mikið úrval lita og spennandi samsetninga.

Í miðri tiltekt kom í ljós að mig vantaði pennastatíf, en þar dó undirritaður ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Reyndar hefði eflaust verið skemmtilegra að nota bjórdós, en hér í útlandinu drekkur maður bjór úr flöskum!

Ég kynni nýja pennastatífið mitt; dósapennastatífið:

Dósapennastatífið, algerlega sans patent

Dósapennastatífið

Jafnvel ég er ekki svo kræfur að halda því fram að þetta sé sérlega frumlegt, en læt þó uppskriftina fylgja með:

Notuð er gos- eða öldós (helst tóm). Efsta hluta hennar (lokinu) er svipt af með dósahníf (mælt er með betri hníf heldur en garminum hans Andreasar). Eftir sviptingu gefst færi á að skola vel innan úr dósinni og er mælt með því til að forðast framtíðarvandamál vegna lyktar.

Eftir að hafa þurrkað dósina er bætt í hana smá sykri sem ballast (til aukins stöðugleika fyrir þá lesendur sem ekki skilja svona sjóarahugtök). Til þess að pennar sem látnir eru standa í dósinni fyllist ekki af sykri er kertavax látið drjúpa yfir sykurinn til að hjúpa hann.

Voila!

Lýkur þar með föndurhorni Þórarins að sinni.


< Fyrri færsla:
Fyrsta einkunn í húsi: 10!
Næsta færsla: >
Nýjar myndir af Vilborgu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry