Fyrsta einkunn í húsi: 10!

Þá er ég búinn að taka fyrsta munnlega prófið hér í útlandinu. Það gekk bara mjög vel og ég fékk 10 sem í þrettánkerfi bauna jafngildir ca. 9 í "normal" skala okkar Íslínga. Ég væri hæstánægður með það, ef prófdómararnir hefðu látið vera að segja mér hvers vegna ég fékk ekki 11...

Þau voru mjög ánægð með uppbyggingu fyrirlestursins og það hvernig ég tengdi hinar margvíslegu greinar inn, en mér tókst samt að skjóta mig í fótinn á einum stað. Ein greinanna (sem ég kvartaði yfir hér í dagbókinni) var þess eðlis að þótt ég skildi hana ekki þótti mér líklegt að prófdómararnir myndu sakna hennar ef ég sleppti henni alveg.

Ég fór því þá leið að nefna hana í forbifarten (framhjáhlaupi) (skemmtilegt að vera farinn að þýða sjálfan sig) og að mér þætti þær aðferðir sem hún lýsir ekki passa í því tilviki sem ég væri að ræða. Þau spurðu mig nánar út í þetta eftir minn fyrirlestur og mér vafðist að mestu leyti tunga um tanngarð - a.m.k. nægjanlega til að þau nefndu þetta sem rökstuðning sinn fyrir því að gefa mér ekki hærra en 10.

Þegar ég nefndi mínar ástæður, þ.e. ég hefði haft á tilfinningunni að það að sleppa alveg að nefna hana hefði litið illa út - þá ypptu þau öxlum og sögðu að það hefði líklega ekki gert það.

En það hefur aldrei verið minn stíll að kvarta yfir því að fá tíu í einkunn! Þannig að þetta fer bara í reynslubankann.

Verst að þessi velgengni á alveg eftir að rústa dugnaði mínum við undirbúning fyrir næsta próf sem er eftir tæpa viku - tölvuleikjateoría :)


< Fyrri færsla:
Skriflegur undirbúningur fyrir munnlegt próf
Næsta færsla: >
Patent pending
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry