Lyder og ulyder

Verður hér sagt af hljóðum og óhljóðum sem hafa læðst inn í tilveru mína á einn eða annan hátt upp á síðkastið. Um leið er þetta vanmáttug tilraun til að koma nýyrðinu ulyder á framfæri, en baunar eiga (mér vitanlega) enga samsvörun við hið lýsandi orð óhljóð. Þykir mér það miður.

Ég þykist viss um að þetta verði með eindæmum sjálfhverf og öndarleg færsla. En <yppir class="öxlum" /> þetta er mín dagbók!

Fyrsta hljóðið er klósetthljóð. Klósetthljóð eru venjulega ekki samþykkt umræðuefni á mannamótum, en þetta er reyndar af slíkum toga að vera nokkuð meinlítið til umræðna. Klósettkassinn hefur nefnilega tekið upp á því undanfarna daga að syngja. Hátt og hvellt.

Ekki hef ég reyndar náð að greina hvort hann er sópran eða alt. Enda er það kannski torgreint.

Sönginn uppgötvaði ég fljótlega eftir að Andreas flúði mig til Tælands. Ekki veit ég hvort hann upphófst fyrst þá, eða hvort það var það að vera einn í þögulli íbúð sem varð til þess að ég varð fyrst var við hann þá.

Eftirgrennslan leiddi í ljós að líklega er þetta einhverskonar sírennsli í kassanum sem veldur þessum látum. Reyndar er þetta ekki nægilega öflugt rennsli til að vera virkjað - varla merkjanlegt að vatnsyfirborðið gárist.

Hafandi heyrt tröllasögur af gríðarlegum vatnskostnaði hér í DK sá ég fyrir mér að yrði ekki hart við brugðist yrði Andreas orðinn gjaldþrota þegar hann kæmi aftur frá Tælandi (og ekki á tröllaukinn orkureikninginn sem hann er að rembast við að greiða á afborgunum bætandi). Rökleiðsla byggð á sýnilegu fyrirkomulagi pípulagnar leiddi hins vegar í ljós að vatnsreikningur stigagangsins getur ekki annað verið en sameiginlegur. Þannig að í versta falli yrði Andreas 1/12 úr gjaldþroti.

Vandinn er hins vegar að hvinurinn berst í gegnum luktar dyr og til að halda sönsum hef ég tekið upp á því að skrúfa fyrir aðrennslisgöngin að kassanum þegar hann hefur fyllt sig. Það er bærileg lausn meðan ég er bara einn í slotinu og enn hef ég ekki komið að tómum kassa af þessum orsökum. Landlordinn fær að kljást við varanlegri lausn þegar hann kemur aftur.

Næsta hljóð er í raun safn hljóða (og flestra þeirra óhljóða) sem berast frá íbúðinni fyrir neðan mig.

Þegar ég kom aftur úr fríinu var orðsending frá nýjum eigendum hennar á uppslagstøflunni í anddyrinu þar sem þau buðu sjálf sig velkomin í húsið og vöruðu við því að íbúðin þyrfti vægast sagt á kærleiksríkri hönd að halda.

At kræve en kærlig hånd, þýðir eftir því sem ég næst kemst, að þörf sé á að taka ærlega til hendinni (a.m.k. þegar talað er um íbúðir).

Undanfarið hefur því verið sagað, borað, skrapað og barið af miklum móð. Þegar ég gjóaði glyrnum inn um opnar dyr í morgun virtist íbúðin orðin rétt tæplega fokheld og það verður skemmtilegt að hlusta á uppbyggingu hennar ekki síður en niðurrif.

Þriðja hljóð er/var soldið spúkí.

Þar sem ég lá í beði mínu rétt rúmlega miðnætti í gær og las heimsbókmenntir á tungu engilsaxa (OK, klisjukenndan reyfara) gaf óþekktur búkur algerlega óforvarendis frá sér stunukennt öskur (eða öskurkennda stunu) í næsta nágrenni við mig.

Þetta hljóð hefði ekki komið sérlega á óvart ef hávær og langdreginn ástarleikur hefði farið á undan. En svo var ekki. (Blessunarlega eru nágrannar mínir í þessu hljóðbæra húsi annað hvort mjög hljóðlátir eða gersamlega sviptir kynþörf). Sefandi röddin sem heyrðist hvísla skömmu síðar og samþykkjandi svarhljóð sem upphaflegi hljóðgjafinn lét frá sér bentu einna helst til að hann hefði hrokkið upp af martröð.

Ég er mjög feginn að hafa verið vakandi, þetta var nógu spúkí svona - enn verra ef hljóðið hefði vakið mig úr svefni, það hefði verið MJÖG óþægilegt.

Næsta hljóð gæti vel vakið mig úr svefni einhvern tíman. Ég var að komast að því að nýja fína rúmið mitt getur gefið frá sér þetta ógurlega brak við það eitt að maður hagræðir sér lítið eitt. Ég er búinn að greina frá hvaða samskeytum í grindinni brakið berst, en hef sannast sagna ekki hugmynd um hvernig ég get þaggað niður í því.

Ég býð ekki í hvað nágrannarnir munu halda ef ég tæki nú upp á þeim ósóma að fá næturgest... Nei, það ber víst að forðast í lengstu lög (þeirra vegna).

Lokahljóðið er mitt innlegg í hljómagang hússins. Ég keypti nebbnilega í dag netta hátalara til að hafa á skrifborðinu mínu til að geta blastað tónlistarsmekk mínum yfir nágrennið.

Gripirnir eru USB tengdir, sem þýðir að þeir eru óháðir tónstyrknum í tölvunni og ég slepp við að flækjast með enn einn spennubreytinn. Þeir eru líka með merkilega góðan hljóm og bassa miðað við stærð.

Ég held að við eigum eftir að eiga góðar stundir saman, ég og þessir hátalarar. Og við þurfum sko enga næturgesti til að hygge okkur - ó nei.


< Fyrri færsla:
Hlaupa, hljóp, hlaupið
Næsta færsla: >
Mr. Handyman
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry