Fróðlegur fyrirlestur og skemmtileg tilvitnun

Síðastliðinn föstudag fór ég á gestafyrirlestur hjá Henry Jenkins sem er prófessor í Literature and Comparative Media Studies hjá MIT, og hefur meðal annars skrifað bókina "From Barbie To Mortal Kombat".

Hann hélt fyrirlestur sem hann kallar Searching for the Origami Unicorn: The Matrix and Transmedia Storytelling, og var að mörgu leyti mjög fróðlegur.

Jenkins er að skrifa bók um þær breytingar sem orðið hafa upp á síðkastið á notkun fólks á miðlun upplýsinga og þess hvar upplýsingarnar er að finna. (Hafi ég skilið hann rétt).

Í þessum fyrirlestri fókusaði hann á fyrirbærið "Transmedia Storytelling", þ.e. þegar ólíkir miðlar eru markvisst notaðir til að skapa heildarmynd af söguheimi (sbr. t.d. Pókemon-æðið). Hann tók Matrix myndirnar (og anime, tölvuleikinn, myndasögubækurnar) sem dæmi og gat bent á margt fróðlegt í því samhengi.

Meðal annars vitnaði hann í kunningja sinn sem hefur skrifað kvikmyndahandrit í áratugi og sagði að í upphafi ferilsins hafi hann lagt áherslu á að selja söguna (pitching the story), það hafi færst yfir í að selja karakterana (grunnurinn að því að markaðssetja varning tengdan myndunum), en nú væri það söguheimurinn sem væri málið, enda væri það lykillinn að því að nýta hugmyndina í fleiri miðlum.

Hann færði m.a. rök fyrir því að í því efni sem var útgefið eftir Matrix 1 hafi Wachowski-bræður markvisst dreift sögunni á ólíka miðla. Þannig eru t.d. sumar persónur í myndunum kynntar til sögu í anime-myndunum eða Enter the Matrix tölvuleiknum - og fyrir okkur sem bara sáum myndirnar veldur það því að okkur vantar bakgrunnsupplýsingar.

Jenkins viðurkenndi fúslega að þetta hefði verið að mörgu leyti misheppnuð tilraun ("Too premature and failed in many ways"), en hann vildi samt meina að þetta væri eins konar prótótýpa af því hvert þróunin stefndi.

Hann vildi meina að þótt okkar kynslóð kynni kannski ekki lagið á því að púsla saman heildarmynd úr ólíkum miðlum þá væri pókemon kynslóðin miklu vanari því.

Mér fannst líka fróðlegt þegar hann líkti þessu saman við upplifun ólæsra Evrópubúa á miðöldum af kristninni. Þeirra mynd var samsett úr söngvum, munnmælasögum, prédikunum, steindum kirkjugluggum o.s.frv.

En í mínum huga stóð ein tilvitnun upp úr í þessum fyrirlestri. Þegar hann var að ræða um tölvuleiki og að hugmynd almennings um það hvað væri (góður) tölvuleikur væri ekki endilega sá sami og "okkar" sem værum að grúska í leikjum og samanburði á þeim:

Nowadays the concept computer game has become anything fun that you do with the computer that isn't pornography.

Þá skríkti í marbendli.


< Fyrri færsla:
Kvef að morgni prófdags
Næsta færsla: >
Meðaleinkunn sem aldrei fyrr
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry