Kvef að morgni prófdags

Í dag fer ég í þriðja prófið mitt, Computerspilteori. Ég veit satt best að segja ekki hvernig það á eftir að ganga, en er samt bjartsýnn á að fá þokkalega einkunn. Planið var að byrja daginn í dag á því að fara út að skokka, en þegar ég vaknaði með hálfstíflað nef, hálsbólgu á byrjunarstigi og höfuðið að fyllast af kvefi ákvað ég að láta það eiga sig að sinni.

Kvef mín eiga það reyndar til að gufa upp jafn snögglega og þau birtast, þannig að ég er bjartsýnn á að þetta verði ekki langvarandi ástand.

Varðandi prófið þá er þetta það próf sem ég var einna afslappaðastur yfir áður en próftíðin byrjaði. Hins vegar hefur gott gengi það sem af er, ekki reynst hafa jákvæð áhrif þegar kemur að sjálfsaga við próflestur. Ég hef verið að rembast við undirbúning undanfarna daga, en stór hluti af þeim tíma hefur farið í að liggja aðeins og lengi í rúminu á morgnana, grúska aðeins of mikið í veraldarvefnum yfir daginn og horfa aðeins of mikið á sjónvarp á kvöldin.

Á einhverju plani finnst manni samt að maður sé ekki að svíkjast alveg jafn mikið um svona, eins og ef maður til dæmis væri að vinna að einhverju allt öðru. Manni líður einhvern vegin betur að vera að gera ekki neitt af viti (en vera þó með samviskubit yfir lestrinum) heldur en að sýna dugnað við eitthvað allt annað en að lesa...

Uppveðraður af síðasta prófi þar sem ég ruddist í gegnum 13 glærur á 10 mínútum ætla ég að bæta um betur og sendi kennaranum í gær PowerPoint skjal með 26 glærum (sem á að afgreiða á 10 mínútum). Hann sendi mér um hæl staðfestingu á því að skjalið hefði borist og benti á að 26 glærur væru heldur mikið fyrir 10 mínútna fyrirlestur.

Ég er samt búinn að æfa mig að fara með fyrirlesturinn og ég er að klára hann á ca. 10-11 mínútum (stór hluti glæranna eru myndir sem ég rúlla mjög hratt í gegnum). Ef í harðbakkann slær hoppa ég bara yfir tilvitnunina í Aristóteles sem er undir lok fyrirlestursins.

Já, það er hægt að vitna í Aristóteles í fyrirlestri um tölvuleiki!

Ég held að einkunnin muni ráðast af tvennu; líkamlegu stuði (ef kvefið magnast er það neikvætt) og því hvort prófdómurum þyki ég hafa nógu bitastætt efni. (Þetta er reyndar svolítið eins og að segja að veðrið muni líklega ráðast af tvennu; úrkomu og vindi...) Líklega verður einkunnin milli 8 og 10 (á dönskum skala) - vonandi ekki lægri en 9.

Síðan eru tvær vikur, segi og skrifa tvær vikur, í næsta próf. Ég kem til með að hitta stelpurnar á einhverju kaffihúsi á fimmtudaginn til að skoða hvaða línur við eigum að leggja í undirbúningnum fyrir það próf. Geri samt ekki ráð fyrir að það verði nema 1-2 daga verk. Að öðru leyti munu þessar vikur reyna mjög á sjálfsaga og dugnað.


< Fyrri færsla:
The Dust of Death & Monty Python
Næsta færsla: >
Fróðlegur fyrirlestur og skemmtileg tilvitnun
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry