Nokkur Firefox trix

Það þarf víst ekki að segja neinum frá því að Firefox 1.0 vafrinn sé sniðug græja og fyllsta ástæða til að taka hann í notkun í stað Internet Explorer. Ég er búinn að vera að taka aðeins til í Eldrefnum mínum og komst að ýmsu nýju, þannig að hér er samantekt nokkurra áhugaverðra ábendinga um Firefox - sumt gamalt og annað nýtt.

Fyrst eru hér nokkrar ábendingar um hvernig hægt er að láta fara eins lítið fyrir Firefox og hægt er.

Án breytinga lítur hann nokkurn vegin svona "úr umbúðunum" (ég er reyndar búinn að draga nokkra vefi sem ég nota mikið niður í "Bookmarks Toolbar"):

Firefox screenshot

Fyrsta trixið er að fara í View -> Toolbars -> Customize og haka við "Use Small Icons". Þá sparast strax töluvert pláss:

Firefox screenshot

En svo er það alvöru Barbabrella. Annar möguleiki undir View -> Toolbars -> Customize er að hægt er að draga til einingar milli valstika (toolbars). Þannig er hægt að draga innihald bókamerkjastikunnar "Bookmarks Toolbar Items" í heilu lagi upp í efstu stikuna. (Ég mæli með að inn á milli sé annað hvort dregið bil eða lóðstrik (|) - sem hvorttveggja er að finna í Customize glugganum.

Nú er bókamerkjastikan tóm og hægt að velja View -> Toolbars og afhaka að birta þá stiku. Þá verður skjámyndin eitthvað í líkingu við:

Firefox screenshot

Allar skjámyndirnar hér fyrir ofan eru jafnháar, þannig að það er auðvelt að sjá að í hverju þrepi "græðist" pláss sem svarar til um það bil einnar textalínu.

Svo er um að gera að setja persónulegan blæ á allt saman með því að velja sér þema: Tools -> Themes og Get More Themes. Sjálfur nota ég "GrayModern", sem er stílhreint og einfalt:

Firefox screenshot

Og hvaða regnbogi er það sem sést á þessum skjámyndum? Þetta er nýja lúkkið á thorarinn.com sem ég hannaði í vor og sumar, en er eiginlega orðinn leiður á án þess að hafa nokkurn tíman klárað það. Það mun því líklega aldrei líta dagsins ljós í þeirri mynd sem það er núna.

Fleiri ábendingar:

  • Firefox fylgja margvíslegar viðbætur (Extensions). T.d. er Adblock mjög vinsæl leið til að slökkva á auglýsingum, og ég er nýbúinn að setja inn Web Developer - sem lítur vel út.
  • Mbl.is eru svo almennilegir að setja allar sínar auglýsingar undir http://www.mbl.is/augl/, þannig að ef Adblock er gefin reglan að blokkera http://www.mbl.is/augl/* hverfa allar auglýsingar eins og dögg fyrir sólu.
  • Einn aðalfídus Firefox er auðvitað að vinna í flipum (tabs) í stað þess að opna sífellt fleiri glugga. Augljósasta leiðin er að hægri-smella á tengla og velja "Open Link in New Tab". Einfaldasta leiðin er samt að smella á tengilinn með músarhjólinu (ef maður er með svoleiðis græju). Ég er nýlega búinn að læra þetta, en man aldrei eftir því :(

Man ekki eftir fleiru í bili. Góða skemmtun.


< Fyrri færsla:
Meðaleinkunn sem aldrei fyrr
Næsta færsla: >
Rekinn!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry