Föstudagsævintýri - fyrri hluti

Á föstudagbarnum voru færri en á átti von á. Samt sýnist mér að flestallir séu í sömu sporum og ég, búnir með öll fagprófin og bara eftir að verja fjögurra vikna verkefnin, og því upplagt tækifæri til kæruleysis. Kannski menn hafi almennt valið að stunda það kæruleysi utan skólans, en fámennið var góðmenni og kvöldið varð mjög skemmtilegt.

Búið var að auglýsa nýtt bjórúrval, en ég byrjaði samt á kunnuglegum slóðum og keypti mér Tuborg Classic Gylden, svona meðan maður var að kanna stöðuna. Gylden er einn af uppáhalds dönsku standardbjórunum mínum, en Tuborg Classic og Carls Special eru ekki langt undan.

Bæði brugghúsin eru of upptekin við að vera með töff flass-vefi til þess að hægt sé að linka beint inn á upplýsingar um bjórana þeirra - dapurlegt.

Á borðinu mínu voru flestir að sötra Budveiser bjóra úr hálfslítra flöskum og létu ágætlega af. Ég hef ekki verið sérlega hrifinn af Budveiser, en þegar ég skoðaði flöskuna betur er þetta tékkneskur Budveiser, en í ógurlega amerískum umbúðum. Ég fékk mér Dark útgáfuna sem reyndist allt í lagi, en ekki þannig að ég eigi eftir að leita hann sérstaklega uppi. Ameríkaníseringin hefur kannski gengið aðeins of langt, því hefði ég ekki vitað að hann væri bruggaður í Tékkó hefði ég best trúað að þetta væri amerísk stæling á millidökkum evrópskum bjór.

Næsti bjór var óneitanlega meira spennandi, hvorki meira né minna en: "Monty Python's HOLY GRAIL" frá Black Sheep brugghúsinu. Seldur í hálfs lítra flöskum með ekta Monty Python grafík og sérstaklega tekið fram að hann er "Temped over burning whitches". Holy Ail fær mín meðmæli, því hann er ekki bara í flottum umbúðum heldur reyndist hann helvíti góður. Breskur, millidökkur bjór. Góður.

Og sem (fyrrum) sveitamaður er vart annað hægt en að falla fyrir brugghúsi sem heitir Black Sheep. Enda eitt af þeim sárafáu skiptum sem ég horfðist í augu við dauðann í uppvexti mínum þegar ég horfðist í augu við tryllta svarta kind vafða inn í gaddavír sem hafði séð að ég myndi veikasti hlekkurinn í fólkshringnum sem reyndi að loka hana inni og setti því undir sig hornin og réðst til atlögu...

Toppurinn í bjórsmökkun kvöldsins var samt Shepherd Neame 1698 Celebration Ale. Annar breskur bjór, ekki ósvipaður Holy Ail, en jafnvel betri. Verður hiklaust prufukeyrður aftur við tækifæri.

Ég held að ég sé smám saman að fá smekk fyrir aðeins "öðruvísi" bjórum og það er alger snilld að geta smakkað sig svona áfram á góðum prísum (dýrasta smakk kvöldins var 1698 bjórinn á 26 krónur hálfs lítra flaska (ca. 300 kall íslenskar)).

Ég verð að lokum að nefna að á miðvikudaginn kom Aðalsteinn í heimsókn, og ég slátraði einum alikálfanna í tilefni af því, þ.e. opnaði einn af Vores Øl flöskunum mínum. Ég viðurkenni að ég er alls ekki hlutlaus, en hann kom mér skemmtilega á óvart (bjórinn, ekki Aðalsteinn) og var bara asskoti góður. Hann hefur batnað mikið síðan ég smakkaði hann fyrir jól og ég er alveg viss um að það væri hægt að markaðssetja þennan bjór. Smjatt, smjatt.

Lesendur thorarinn.com eru eindregið hvattir til að skella sér til Köben og fá leiðsögn um Fredagsbarinn, og hver veit nema enn verði eftir einn af Vores Øllurunum ef hart er brugðist við...


< Fyrri færsla:
Beðist velvirðingar á póstveseni
Næsta færsla: >
Föstudagsævintýri - seinni hluti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry