Föstudagsævintýri - seinni hluti

Það er auðvitað skammarlegt hvað ég sem laus og liðugur (kannski þó meira laus en liðugur, svona strangt til tekið - enda óttalegur stirðbusi) hef lítið gert af því að stúdera næturlíf stórborgarinnar. Þó var gerð örlítil bragarbót þar á eftir Fredagsbar gærkvöldsins.

Þegar leið á kvöldið vorum við nokkur eftir út DKM grúppunni og ákveðið að halda yfir á Vesterbro þar sem Anna ætlaði að hitta vinkonur sínar og við hin ákváðum flest að fylgja með. Ég var sá eini sem ekki var á hjóli (geri það mjög meðvitað að fara ekki hjólandi á föstudagsbarinn), þannig að ég fékk leiðbeiningar um hvar barinn sem stefnt var á væri og farsímanúmer hjá tveimur í hópnum.

Ég tók búss upp á Hovedbanegården og eftir að hafa skellt í mig hammara og frönskum rölti ég í prýðilegu veðri vestur Istedgade. Gatan var töluvert líflegri en ég mundi eftir frá skoðunarferðum mínum um hana fyrir rúmu ári. Líklega stafar það af því að á kvöldin var maður aðallega á ferðinni í hótelendanum, vestari hlutann skoðaði ég í dagsbirtu sem er greinilega allt annað mál.

Ég rak augun í gamlan kunningja; skiltið "Sex Porno" og velti því (aftur) fyrir mér hvort til væru aðrar gerðir af pornói. Vestur á Enghave Plads komst ég klakklaust og þar reyndist auðvelt að finna Butique Lize þar sem hinir krakkarnir voru. Þetta er svona kokteilabar með margvíslegum marglitum drykkjum, en við héldum okkur flest við ölkrúsirnar. Vinsælasti drykkurinn (eða mest áberandi) virtist vera eins konar jarðarberjakrap í margaríta-glasi. Staðurinn var ekki sérlega stór, en greinilega inn hjá inn-krádinu (sýndist mér a.m.k.).

Um eittleytið tók hópurinn að tvístrast og það endaði með því að við Toni röltum fyrir hornið og á skemmtistaðinn Vega að kíkja á stelpurnar innanhússarkitektúrinn. Það var bara gaman og tónlistin á efri hæðinni skemmtileg, jafnvel fyrir gamlingja eins og mig. Á neðri hæðinni var harðara teknó í gangi og það sem mér þótti mest til koma þar (fyrir utan þreföldu diskókúluna) voru leikhúslegu svörtu tröppurnar sem stóðu á miðju dansgólfinu. Ein sex þrep upp og aftur niður.

Staðurinn er annars mjög flottur, með innréttingar frá 6. og/eða 7. áratugnum, flotta "lounge"-sali með enn flottari sófum. Gæti alveg huxað mér að kíkja aftur þangað í góðum hópi.

Um þrjúleytið kvöddumst við Toni og hann fór að leita að leigubíl. Ég ákvað að vera sparsamur, enda veðrið stillt og gott og rölti til móts við búss.

Istedgade iðaði af lífi og næstum allir kebabstaðirnir (og þeir eru ekki fáir) virtust opnir, auk fjölmargra sjoppa fyrir þá sem vildu kaupa ódýran bjór. Í hótelenda götunnar var hópur hörundsdökkra kvenna sem vildu ólmar og uppvægar ræða við mig um lífið og tilveruna og höfðu af því áhyggjur að ég skyldi vera einn á ferð. Geðslegar stúlkur.

Ég komst að því að næturbússarnir stoppa ekki við Hovedbanegården, heldur Rådhuspladsen og eftir þá uppgötvun gekk snuðrulaust að koma sér heim. Ég hef reyndar grun um að strangt til tekið hefði ég átt að klippa kortið mitt tvisvar, en það gerði enginn athugasemd við það (og ég á síðasta klippi kortsins).

Heim á Amager var ég svo kominn um fjögurleytið eftir skemmtilegt kvöld. Reyndar voru skórnir sem ég fór í heldur hugsaðir til setu á barstólum, ekki langþrammana, og gott að komast úr þeim þegar heim var komið. Ég held líka að reykingalyktin úr dúnúlpunni hverfi ekki næstu vikurnar.


< Fyrri færsla:
Föstudagsævintýri - fyrri hluti
Næsta færsla: >
Auglýsing á netinu skilar strax árangri
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry