Ráðherra í umferðinni

Hér var boðað til þingkosninga með mánaðarfyrirvara fyrir hálfum mánuði, sem þýðir að allt kraumar og iðar í kosningaáróðri, rökræðum í sjónvarpi og auglýsingaflóði. Ég hef reyndar ekki grænan grun um hvaða flokkar standa fyrir hvað, en mér skilst að helsta gagnrýnin á kosningabaráttuna sé að það sé ekki úr neinu að velja - allir flokkarnir séu að stíla inn á sama miðjumoðið og að höfða til velmegandi millistéttarinnar.

Það hefur reyndar verið sagt að þetta verði líklega dýrasta kosningabarátta sögunnar, ekki í auglýsingakostnaði heldur í kosningaloforðum. Menn keppast við að yfirbjóða hvern annan og lofa gulli og grænum skógum.

Frá áramótum hefur allt verið upp í loft yfir 50 aura færslugjöldum sem bankarnir eru byrjaðir að rukka verslanir vegna Dankorta (debetkorta) (áður voru færslurnar ókeypis). Verslanirnar hafa nærri undantekningalaust rukkað kúnnana beint um 50 aura aukalega fyrir að borga með korti. Dönum hefur ekki verið skemmt.

Nú skyndilega lofa menn í valdastöðum að láta gjaldið gufa upp ef þeir vinna kosningarnar. Mér skilst að enginn hafi reyndar sagt hver á þá að borga, en "den tid, den sorg".

Hér tíðkast greinilega að hengja upp andlitsmyndir af frambjóðendum á kartonspjöldum hvar sem við verður komið. Þeir dingla því hver ofan við annan á ljósastaurum og öðrum ámóta mannvirkjum.

Ekki eru allir jafn vel festir upp og það er heldur dapurlegt að sjá ekið yfir foknar andlitsmyndir á götunum. Ekki síður að sjá myndir dingla á hvolfi, mér flaug satt best að segja Mussolini í hug.

Áðan ók fram hjá mér flutningabíll vandlega merktur Venstre í bak og fyrir, með flennistórum forsætisráðherra skælbrosandi á hliðinni. Ég er hræddur um að mér brygði illilega ef ég væri á akstri í Reykjavík og skyndilega fyllti skælbrosandi Halldór Ásgrímsson út í hliðarrúðuna hjá mér.

Þeir eru reyndar til sem segja að það eitt að sjá Halldór skælbrosandi fylli þá skelfingu, en það er annað mál.


< Fyrri færsla:
Árstíðarflökt
Næsta færsla: >
Yfirvofandi flóð Linux nörda
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry