Íslenskur tölvuleikjafyrirlestur

Ég var að koma af íslenskum tölvuleikjafyrirlestri, að vísu höldnum á ensku fyrir danska áheyrendur, en óumdeilanlega íslenskur þrátt fyrir það. Eins og glöggir lesendur gera sér grein fyrir að þar sem þessi tvö tré orð koma saman, íslenskt og tölvuleikir, er umræðuefnið Eve Online.

Fyrirlesturinn var hluti af tölvuleikjafyrirlestraröð sem stendur yfir þessa mánuðina. Kjartan Emilsson, titlaður Lead designer hjá CCP, hélt fyrirlestur um þróun og sögu Eve, gaf nasaþef af fyrirhugðum nýjungum og svaraði spurningum.

Ég hef gantast með það að ef ég legg áherslu á tölvuleiki í námi mínu hér, sé CCP eina fyrirtækið sem ég gæti unnið hjá heima á Íslandi. Það var því gaman að þessi fyrirlestur skyldi skjóta upp kollinum. Ég hafði velt því fyrir mér að reyna að networka svolítið og spila út íslendingatrompinu, en eftir fyrirlesturinn var ekki vinnandi vegur að komast að Kjartani fyrir hópi nörda sem flykktust að honum líkt og táníngsstúlkur bítli.

Í salnum voru eflaust hátt í 100 manns, karlmenn milli 20 og 35 ára. (Ég held ég hafi séð þrjár konur.) ITU nemendur voru kannski 1/5 - 1/6 af hópnum, restin voru Eve nördar.

Annars vegar eru til nördar (og ég er stoltur af að geta á stundum talist einn af þeim), hins vegar eru til NÖRDAR (sem eru næstum því annar kynstofn). Þessi samkoma var reyndar ekki sú allra nördalegasta sem ég hef komið á, að meðaltali hafa þetta trúlega flokkast sem NÖRdar.

(Þetta var með eindæmum nördalega að orði komist.)

En semst, ég skildi ekki helminginn af spurningunum (hvað þá svörin), en þegar Kjartan keyrði upp Eve heiminn á laptoppnum sínum(!) og tók nokkrar lágflugsæfingar niðri við yfirborð plánetnanna tóku Eve nördarnir áhangendurnir í kringum mig andköf og gáfu hver öðrum olnbogaskot í gríð og erg.

Við önnur tilþrif og varlega orðaðar vísbendingar um hvers væri að vænta í næstu uppfærslum var mikið um augngotur og upprétta þumla (oft með meðfylgjandi slefdropa í munnviki).

Afraksturinn af þessu er þó sá að nú er komið Eve Online plakat upp á vegg í hvíta klefanum mínum.


< Fyrri færsla:
Et tu, U2!
Næsta færsla: >
Danskur kosningaáróður
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry